Í nýjum tölum hagstofunnar kemur fram að íbúum í Strandabyggð hefur fjölgað um 15 á síðasta ári. Þeir voru 501 þann 1. janúar 2011, en voru orðnir 516 í ársbyrjun 2012. Í Kaldrananeshreppi fækkaði um 2 á árinu 2011, úr 106 í 104. Íbúafjöldi í Árneshreppi stendur í stað milli áramóta, en íbúar þar eru 52. Samtals hefur því íbúum í þessum þremur hreppum fjölgað um 13 á árinu 2011 og þeir eru samtals 672. Hafa ekki verið fleiri frá árinu 2005, en þá voru þeir 692. Ekki eru birtar tölur fyrir Bæjarhrepp lengur, þar sem hann sameinaðist Húnaþingi vestra um áramótin síðustu.
Á Vestfjörðum í heild er íbúaþróun fremur óhagstæð á þessu ári. Í Vesturbyggð fjölgar íbúum þó um 20 og eru nú 910 og í Bolungarvík fjölgar um 1 og eru íbúar þar 889. Í Reykhólahreppi fækkar íbúum um 7 og eru nú 271, í Súðavíkurhreppi fækkar um 10 og eru íbúar nú 182 og í Tálknafjarðarhreppi fækkar um 30 og eru íbúar nú 276. Í Ísafjarðarbæ fækkar íbúum um 69 og eru nú 3.755. Samtals hefur því íbúum Vestfjarða í þessum 9 sveitarfélögum fækkað um 82.