Hagstofa Íslands hefur nú birt bráðabirgðatölur um íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum 1. desember 2007. Þessar tölur hafa reynst býsna nákvæmar síðustu ár og litlar breytingar hafa venjulega orðið við endanlega birtingu á íbúatölum. Strandamenn í héraði eða öllu heldur þeir sem eiga lögheimili á svæðinu eru nú 752 talsins og hefur fækkað um 6 frá fyrra ári. Íbúar á Ströndum voru 830 árið 2003, en árið 1998 voru þeir 928. Íbúafjöldi á Ströndum 1. desember í ár er eftirfarandi:
Árneshreppur – 48 íbúar, fækkun um 2 frá 2006.
Kaldrananeshreppur – 102 íbúar, fjölgun um 1 frá 2006.
Strandabyggð – 500 íbúar, fækkun um 7 frá 2006.
Bæjarhreppur – 102 íbúar, fjölgun um 2 frá 2006.
Athygli vekur að Árneshreppur fer nú í fyrsta sinn niður fyrir 50 íbúa markið sem lög kveða á um að sé lágmarksfjöldi íbúa í sjálfstæðu sveitarfélagi. Einnig er þetta í fyrsta skipti sem íbúar í Bæjarhreppi eru orðnir jafnmargir og í Kaldrananeshreppi.
Karlar á Ströndum eru samtals 396 og hefur fækkað úr 433 frá árinu 2004, en konurnar eru hins vegar 356 og hefur aðeins fækkað úr 359 frá árinu 2004. Þannig að nær öll fækkun frá því ári felst í því að körlum fækkar. Styður það tilgátur um að þegar verulegt misgengi er á milli fjölda karla og kvenna vegna fólksfækkunar á ákveðnu svæði hafi það tilhneigingu til að leiðrétta sig með því karlarnir elti konurnar í burtu. Þetta er áhugavert rannsóknarefni, eins og reyndar íbúaþróunin öll, og verður fróðlegt að heyra hvernig stjórnvöld og sveitarstjórnarmenn heima í héraði hyggjast bregðast við fólksfækkuninni síðustu ár.