27/02/2024

Dálítil fækkun á þéttbýlisstöðunum

Blíðuveður á Hólmavík - ljósm. JJSamkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar um íbúafjölda í byggðarkjörnum og dreifbýli 1. desember 2007 er öll fækkunin á Ströndum tilkomin vegna fækkunar í þéttbýliskjörnunum þremur. Íbúum á Hólmavík fækkar um 4 á milli ára og eru nú 381. Íbúum á Drangsnesi fækkar einnig um 4 og eru nú 61 og íbúum á Borðeyri fækkar um 2 og eru nú 25. Þetta þýðir að fólki fjölgaði í dreifibýli á Ströndum, um 4 einstaklinga samtals, þótt það sé misjafnt eftir sveitarfélögum.

Árneshreppsbúum í dreifbýli fækkar þannig um 2, í dreifbýli í Kaldrananeshreppi fjölgar um 5, í dreifbýli Strandabyggðar fækkar um 3 og í Bæjarhreppi fjölgar íbúum í dreibýlinu um 4.

Í þorpum á Vestfjörðum eru mjög miklar sveiflur í íbúafjölda milli áranna 2006 og 2007. Þannig fækkar t.d. á Flateyri úr 335 íbúum í 287 og er þorpið sem var 5. fjölmennasti þéttbýlisstaður á Vestfjörðum nú sá orðinn sá 7. fjölmennasti, bæði Suðureyri og Þingeyri eru komnir yfir á listanum. Í Hnífsdal hefur fækkað úr 255 í 235 íbúa og á Súðavík hefur fækkað úr 198 íbúum í 180 á árinu. Á sama tíma fjölgar íbúum Reykhóla um 15 á einu ári, úr 114 í 129.