Nú hafa 6 lög verið valin til þátttöku í úrslitum í Jólalagasamkeppni Rásar 2. Ef okkur skjöplast ekki eiga Strandamenn þar fulltrúa, Björn Guðna Guðjónsson í Bakkagerði. Hann hefur samið lagið Við höldum jól sem er flutt af Höllu Vilhjálmsdóttir og Vilhjálmur Guðjónsson spilar undir. Alls bárust um 50 lög í keppnina og kemur fram í tilkynningu dómnefndar að aldrei hafi gæðin á lögunum verið meiri en einmitt í ár. Lögin verða spiluð reglulega á Rás tvö næstu vikuna og síðan gefst hlutendum færi á að velja það lag sem þykir skemmtilegast. Þann 16. desember verða úrslitin síðan tilkynnt og Jólalag Rásar 2 árið 2005 útnefnt. Fær vinningshafinn vegleg verðlaun. Hér á eftir má sjá hvaða lög koma til greina:
Jólalag Köngulóarbandsins – Köngulóarbandið
(Lag og texti: Köngurlóarbandið)
Jólanótt – Eirvör Pálsdóttir ásamt Kór og Gradualekór Langholtskirkju
(Lag og texti: Eivör Pálsdóttir – Stjórnandi: Jón Stefánsson)
Við höldum jól – Halla Vilhjálmsdóttir
(Lag og texti: Björn Guðni Guðjónsson – Hljóðfæraleikur: Vilhjálmur Guðjónsson)
Eru ekki jólin yndisleg? – Nesvinir
(Lag og texti: Stefán Logi Sigurþórsson)
Jólanótt – Magnús Ingi Sveinbjörnsson
(Lag og texti: Magnús Ingi Sveinbjörnsson)
Það er aðfangadagskvöld – Ragga Spes
(Lag og texti: Rakel Axelsdóttir)