Á kvöldvökunni á Bryggjuhátíðinni í gær fékk Sandra Dögg Guðmundsdóttir sem er 13 ára Drangsnesingur afhenta viðurkenningu, en hún var valin Strandamaður ársins 2006 af lesendum vefjarins strandir.saudfjarsetur.is. Sandra Dögg hefur þurft að glíma við erfiðan augnsjúkdóm, en sýnt fádæma jákvæðni, þrautseigju og dugnað í þeirri baráttu. Hún missti af hátíðinni í fyrra, lá þá á spítala, og þess vegna var ákveðið skömmu eftir að hún vann titilinn í vetur að viðurkenninguna skyldi hún fá afhenta á þessari stórskemmtilegu og vönduðu bæjarhátíð Drangsnesinga. Sandra Dögg er sannarlega vel að þessum titili komin og fékk gott klapp frá gestum Bryggjuhátíðar.
Jón Jónsson ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is afhenti viðurkenningu sem að þessu sinni er gefin af Strandagaldri og Sauðfjársetri á Ströndum. Um er að ræða handverk Strandamanna og í gjöfinni var m.a. bæði verndarengill og verndarstafurinn Ægishjálmur úr silfri sem er öflugasti verndargripur sem þekkist í íslenskum menningararfi og er jafnframt merki Strandasýslu.
Sandra Dögg fékk mikið og verðskuldað klapp frá gestum Bryggjuhátíðar. Hún hefur misst sjónina á hægra auga, en heldur nokkurri sjón á vinstra auga með gleraugum þótt brugðið geti til beggja vona með hana. Sandra Dögg fór nýverið til Svíþjóðar þar sem skoðað var hvort hægt væri að gera aðgerð til að viðhalda sjóninni á því auga til frambúðar, en niðurstaða lækna var að það væri of áhættusamt. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is og örugglega Strandamenn allir óska Söndru Dögg alls hins besta í baráttunni.
Ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir