22/12/2024

Strandakúnst með jólamarkað

Jólabúðin Handverksfélagið Strandakúnst á Hólmavík hefur opnað sinn árlega jólamarkað á Hólmavík. Að þessu sinni er hann í gamla verslunarhúsnæði KSH við Höfðagötu. Þar hefur handverksfólkið komið sér vel fyrir og séð til þess að það fari ekki fram hjá neinum að jólin eru á næsta leyti.

Vöruúrvalið er margvíslegt og flestir ættu að finna eitthvað í jólapakkana til að gleðja vini og kunningja. Á jólamarkaði Strandakúnstar er einnig flóamarkaður svo enginn ætti að þurfa að fara í jólaköttinn í ár. Ásdís Jónsdóttir sér um afgreiðslu í sölubúðinni og á jólamarkaðnum er eimitt að finna myndlistarsýningu með málverkum eftir hana og Jón Guðlaugsson (Jónsa). Einnig er á jólamarkaðnum lítið kaffihús þar sem upplagt er að setjast niður, narta í piparkökur og hlakka til jólanna. Jólamarkaður Strandakúnstar er opinn alla daga og líka um helgar frá kl. 14:00 – 18:00 fram að jólum.