22/12/2024

Strandabyggð auglýsir eftir sveitarstjóra

Auglýst hefur verið eftir sveitarstjóra í Strandabyggð og sér Hagvangur um ráðningarferlið. Umsóknarfrestur er til 4. júlí næstkomandi og er sótt um á heimasíðu Hagvangs. Þar eru jafnframt leiðbeiningar um hvernig menn bera sig að við að senda inn umsókn. Nýr sveitarstjóri Strandabyggðar þarf að vera mörgum góðum kostum búinn og er þar efst á blaði krafa um hæfni í mannlegum samskiptum, leiðtogahæfni, frumkvæði og hugmyndaauðgi. Einnig er gerð krafa um áhuga og reynslu af bókhaldi, stjórnun og rekstri. Auglýsingin er birt hér að neðan í heild sinni.

Strandabyggð auglýsir lausa til umsóknar stöðu sveitarstjóra.

Starf sveitarstjóra í Strandabyggð er laust til umsóknar og er leitað eftir kraftmiklum og áhugasömum einstaklingi til að takast á við krefjandi verkefni.

Í Strandabyggð búa um 500 íbúar og er Hólmavík þéttbýlisstaðurinn. Atvinnulíf í sveitarfélaginu er fjölbreytt og skólastarf öflugt, grunnskóli, leikskóli og tónskóli. Nánari upplýsingar um Strandabyggð er að finna á vefsíðunni www.strandabyggd.is.

Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum voru tveir listar í kjöri í Strandabyggð, J-listi félagshyggjufólks og V-listi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Listarnir hafa gert með sér samkomulag um samstarf á kjörtímabilinu.

Starfsvið sveitarstjóra:

  • Daglegur rekstur sveitarfélagsins og ábyrgð á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar
  • Yfirumsjón með skipulagi og virkni stjórnsýslu sveitarfélagsins og starfsmannamálum
  • Náið samstarf við sveitarstjórn, undirbúningur og upplýsingagjöf á fundum sveitarstjórnar
  • Annast upplýsingamiðlun og samskipti við samstarfsaðila, stofnanir, samtök, fyrirtæki og íbúa
  • Að gæta hagsmuna Strandabyggðar út á við, vera talsmaður sveitarstjórnar og vinna að framfaramálum
  • Stefnumarkandi vinna og mótun framtíðarsýnar í ólíkum málaflokkum

Helstu kostir sveitarstjóra:

  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Leiðtogahæfni, frumkvæði og hugmyndaauðgi
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti
  • Áhugi á uppbyggingu samfélagsins, kynningarmálum, ímynd og stefnumótun
  • Áhugi og reynsla af bókhaldi, stjórnun og rekstri
  • Þekking á sveitarstjórnarmálum er æskileg en ekki skilyrði
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi er kostur en ekki skilyrði
Nánari upplýsingar:
Þórir Þorvarðarson, thorir@hagvangur.is
Rannveig Jóna Haraldsdóttir, rannveig@hagvangur.is
Umsóknarfrestur:
Til og með 4. júlí 2010