22/12/2024

Strandabyggð ályktar um erfiðleika í sauðfjárbúskap

Sveitarstjórn Strandabyggðar og Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd sveitarfélagsins hafa sent frá sér ályktun þar sem þungum áhyggjum er lýst vegna erfiðleika hjá sauðfjárbændum. Bent er á að sauðfjárbúskapur skipti miklu máli í atvinnulífi sveitarfélagsins og að þörf sé á aðgerðum til að komast yfir tímabundna erfiðleika. Annað sé áfall fyrir byggð og samfélag. Bókun nefndarinnar hljómar svo:

„Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd lýsir þungum áhyggjum vegna erfiðleika hjá sauðfjárbændum. Sauðfjárbúskapur er næst stærsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu. Ef fram fer sem horfir mun afkoma fjölda íbúa í Strandabyggð versna um 40-50% á tveimur árum. Ekkert samfélag þolir það án þess að skaðast efnahags- og félagslega. Þau sveitarfélög þar sem sauðfjárbúskapur er aðal atvinnugreinin munu verða verst úti.

Atvinnu-, dreifbýlis og hafnarnefnd Strandabyggðar tekur heils hugar undir yfirlýsingu landssamtaka sauðfjárbænda frá 11. ágúst og treystir því að stjórnvöld muni grípa til allra mögulegra aðgerða til hjálpar sauðfjárbændum, afurðastöðvum og sveitarfélögum til að komast yfir þá tímabundnu erfiðleika sem nú blasa við. Að gera ekkert í þeirri stöðu sem nú er uppi væri ótrúlegt skeytingarleysi og fyrirlitning gagnvart byggðum landsins.“