30/10/2024

Stoltir og ánægðir ferðamenn

Á dögunum þegar jarðýta fór yfir Tröllatunguheiði til að opna hana almennri umferð þá fylgdi þar á eftir agnarlítill bílaleigubíll á leið frá Ströndum yfir á Reykhóla. Í bílnum var þrjár þýskar stelpur sem höfðu verið á ferð um Hólmavík og víðar á Ströndum á leið yfir á Reykhóla en þar höfðu þær ákveðið næturstað, enda mjög áhugasamir fuglaskoðunarmenn á ferð. Að þeirra sögn botnuðu þær hvorki upp né niður í þessu gula stóra farartæki sem fór löturhægt yfir heiðina og tafði þeim för og gaf hvergi tækifæri á að fara fram úr.


Uppi á háheiðinni þá steig ýtustjórinn úr tækinu og gaf sig á tal við þær og útskýrði fyrir þeim að vegurinn væri ófær, hann væri að opna hann og þær væru fyrstar til að fara yfir á fólksbíl á þessu ári. Þeim stúlkum fannst mikið til þess koma að vera fyrstar yfir heiðina og var ekki laust við að þeim fyndist þær hafa framið þó nokkra hetjudáð. Þessi frásögn er frá Birni Samúelssyni sem rekur gistiheimilið Álftaland á Reykhólum.

Þegar þær komu á áfangastað þá var engu líkara en þær hefðu ekið þvert yfir norðurpólinn svo uppnumdar og montnar voru þær yfir hetjuskapnum. Björn segir að sögur þeirra af ferðinni yfir heiðina hafi verið líkastar því að sífullir togarakallar hefðu verið þar á ferð, en ekki ung og falleg þýsk fljóð í fuglaskoðunarferð. Nú eru þær stöllur komnar til sinna heima og sendu Birni þessar ljósmyndir af þeim af Tröllatunguheiðinni þar sem þær brugðu á leik í gleði sinni. Miðað við gleðina og spenninginn í andlitum þeirra mætti halda að þær hafi klifið Mt. Everest með bílinn þann atarna sem farangur.

.

Frauke Riemer, Tilde Bruun og Annette Nau heita þær þýsku stelpurnar.