22/11/2024

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur áhyggjur

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga kom saman til fundar á dögunum og samþykkti eftirfarandi ályktun um áhyggjur af stöðu atvinnumála og byggðaþróunar og um mótvægisaðgerðir vegna samdráttar í aflaheimildum á þorski. Jafnframt hvetja þau sveitarfélögin til að vinna sínar eigin tillögur um mótvægisaðgerðir og kynna fyrir stjórnvöldum. Ályktunin hljóðar þannig í heild sinni:

"Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af stöðu mála vegna fyrirliggjandi samdráttar í aflaheimildum á þorski.  Mikilvægt er að mótvægisaðgerðir þær sem boðaðar hafa verið verði útfærðar hratt og vel og teknar til framkvæmda strax í haust.
 
Ljóst er að sveitarfélög, fyrirtæki og heimili verða fyrir miklum tekjuskerðingum vegna samdráttarins.  Því ætti að horfa sérstaklega til þess að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna til að þau geti styrkt innviði sína.  Þá er mikilvægt að aðstoða þau fyrirtæki sem hvað harðast verða úti þannig að þau komist yfir þessa erfiðleika sem framundan eru og komist hjá því að segja upp starfsfólki.  Þannig mætti hugsanlega koma í veg fyrir að fólk flyttist burt, sem og að þekking tapist úr atvinnulífi.
 
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hvetur sveitarfélög á Vestfjörðum til að vinna eigin tillögur að mótvægisaðgerðum, kynna þær fyrir stjórnvöldum og vinna að framgangi þeirra í samvinnu við stjórnvöld.
 
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga telur mikilvægt að lögð verði áhersla á að greina áhrif kvótaskerðingarinnar á einstaka byggðarlög.  Meðal þess sem skoða þyrfti væru tekjutap sveitarfélaga og heimila, áhrif kvótaleigu á fyrirtæki og sveitarfélög og fækkun starfa. 
 
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir sig nú sem áður reiðubúna að vinna með stjórnvöldum að frekari útfærslu mótvægisaðgerða.“