22/12/2024

Steinshús – safn um Stein Steinarr opnað

 steinshus

Undanfarin 7 ár hefur verið unnið að því að endurbyggja samkomuhúsið á Nauteyri við norðanvert Ísafjarðardjúp og breyta því í safn og fræðasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr. Aðalsteinn Kristmundsson, sem síðar tók sér skáldanafnið Steinn Steinarr, fæddist að Laugalandi í Skjaldfannardal í þáverandi Nauteyrarhreppi 13. október árið 1908. Nú er komið að opnunarathöfn í Steinshúsi laugardaginn 15. ágúst 2015 kl 14. Ávörp flytja: Þórarinn Magnússon stjórnarformaður Steinshúss, Ása Ketilsdóttir kvæðakona, ábúandi á Laugalandi, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, Kristín Helga Gunnarsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands, Össur Skarphéðinsson fyrir hönd Vina Steins og Ólafur Engilbertsson, höfundur sýningarinnar. Loks mun Elfar Logi Hannesson flytja ljóð eftir Stein og KK leika nokkur lög. Allir áhugasamir um Stein Steinarr og verk hans eru boðnir hjartanlega velkomnir. Nánari upplýsingar eru á vefnum www.steinnsteinarr.is og á Facebook-síðu verkefnisins.