23/12/2024

Steinshús fékk Lóuna, menningarverðlaun Strandabyggðar

Menningarverðlaun Strandabyggðar voru afhent í gær við hátíðlega setningu Hamingjudaga í Steinshúsi við Djúp. Það var Steinshús á Nauteyri sem fékk Lóuna, menningarverðlaun Strandabyggðar, fyrir uppbygginguna á Nauteyri á skáldasetri og sýningu þar sem Steinn Steinarr er í öndvegi. Þórarinn Magnússon frá Ósi sem hefur staðið á bak við uppbygginguna tók á móti verðlaununum fyrir Steinshús. Þá fékk Esther Ösp Valdimarsdóttir tómstundarfulltrúi Strandabyggðar sem er nú að láta af störfum sérstaka viðurkenningu fyrir öflugt starf að menningarmálum, þar á meðal í tengslum við sýninguna Sumardvöl í sveit sem er nú á Sauðfjársetrinu í Sævangi.

Á viðurkenningarskjali fyrir Steinshús segir að verðlaunin séu veitt fyrir „eftirtektarvert menningarframtak í sveitarfélaginu. Steinshús hefur unnið ötullega að uppbyggingu í gamla samkomuhúsinu á Nauteyri  frá árinu 2008 og breytt því í safn og fræðimannasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr sem fæddist í Skjaldfannardal 1908.“ Sýningin í Steinshúsi var opnuð formlega haustið 2015 og hefur verið opnin á sumrin í fyrra og á þessu ári. Mikið átak, dugnað og elju þarf til að koma slíku verkefni á laggirnar.

Á viðurkenningu Steinshúss segir einnig: „Bæði sýning og fræðimannasetur er gert af myndugleik og sveitarfélaginu til sóma auk þess að halda á lofti merkum heimildum um eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar.

Esther Ösp Valdimarsdóttir sem fékk sérstaka viðurkenningu hefur síðustu árin starfað sem tómstundarfulltrúi Strandabyggðar og sem slík stýrt margvíslegum verkefnum og viðburðum, auk þess að vera sjálf virk og áberandi í félagslífi á staðnum. Starf unga fólksins í sveitarfélaginu hefur ávallt verið ofarlega á blaði og Esther hefur m.a. leikstýrt verkefnum þeirra, auk þess að stjórna hátíðahöldum eins og Hamingjudagahátíðinni nú, en einnig Bókmennta- og ljóðavikunni Bókavík, Skjaldbökuhátíð og Hörmungardögum, svo dæmi séu tekin. Hún er nú að láta af störfum sem tómstundarfulltrúi og snúa sér að öðrum hugðarefnum.

Á viðurkenningu Estherar er fjallað um sögusýninguna Sumardvöl í sveit sem opnuð var síðastliðið haust og er uppi á Sauðfjársetrinu í Sævangi í sumar: „Sýningin er hluti af þverfaglegu rannsóknarverkefni um siðinn að senda börn í sveit. Auk sýningarinnar hefur Esther staðið fyrir fjölda viðburða tengdum verkefninu, fyrirlestrum og fjölskyldustundum. Verkefnið tengist svæðinu sterkum böndum …“

Afhending menningarverðlauna Strandabyggðar – ljósm. Jón Jónsson