22/12/2024

Steingrímsfjarðarheiðin heillar

Hrollleifsborg á Drangajökli, ljósm. VeigarEins og venjulega um páska má búast við mikilli traffík á Steingrímsfjarðarheiði og ekkert síður í snjónum utan vegar. Þarna uppi er alltaf snjór yfir öllu langt fram á vorið og þetta heillar jeppamenn og snjósleðakappa um land allt, en menn fara gjarnan af heiðinni inn á Drangajökul eða í aðra leiðangra. Slíkar ferðir eru jafnan miklar ævintýraferðir og eru sífellt vinsælli afþreying bæði hjá heimamönnum og aðkomufólki.

Ferðaþjónar á Ströndum njóta góðs af þessum áhuga á snjónum á Steingrímsfjarðarheiðinni, því hann skapar verkefni og viðskipti á gistihúsum, verslunum, sjoppum, bensínstöðvum, verkstæðum og veitingastöðum á svæðinu. Sífellt algengara er að hópar komi í ferðir á Strandir í mars og apríl og áhuginn virðist vera að aukast frekar en hitt.

Vefur Upplýsingamiðstöðvarinnar á Hólmavík sem gefur upplýsingar um alla ferðaþjóna á svæðinu er á slóðinni www.holmavik.is/info.