22/12/2024

Stefnumál H-listans kynnt

Fréttavefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist dreifibréf frá H-lista almennra borgara í sameinuðum Hólmavíkur- og Broddaneshreppum þar sem stefna listans, frambjóðendur og fyrirheit þeirra fyrir kosningarar eru kynnt. Það er Már Ólafsson sem leiðir H-listann, í öðru sæti er Daði Guðjónsson og sá sem skipar baráttusætið er Jón Stefánsson. Hér að neðan geta lesendur strandir.saudfjarsetur.is skoðað stefnumál H-listans, þar sem dreifibréfið er birt í heild sinni.

H – listinn

Listi almennra borgara

Sveitarstjórnarkosningarnar 27. maí 2006

Ábyrgðarmaður: Már Ólafsson

H – listi almennra borgara mun ekki leggja fram langan eða tæmandi kosningaloforðalista, slíkt væri að okkar mati óábyrg framkoma.

Fjárhagsstaða Hólmavíkurhrepps gefur heldur ekki tilefni til stórra loforða sem væru einna helst til þess fallin að laða kjósendur til fylgis á fölskum forsendum.

Atvinnumál

Atvinnumál eru þau mál sem líklega brenna mest á íbúum sveitafélagsins og stefna þarf að því að þau verði í öndvegi á kjörtímabilinu. Standa þarf vörð um og treysta enn frekar þá atvinnustarfsemi sem í hreppnum er, jafnframt því sem allir möguleikar verði nýttir til að laða að ný atvinnutækifæri eins og raunhæft þykir. Nauðsynlegt er að auka og skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri í framtíðinni. Með fjarskiptatækni þarf að nýta möguleika á nýjum störfum. Fjölmörg störf eru þess eðlis að í raun skiptir landfræðileg staðsetning engu máli. Herja þarf enn frekar á stjórnvöld um að flytja opinber störf á svæðið. Traust atvinna og fjölbreyttir atvinnuhættir er undirstaða stöðugleika og framþróunar. Landsbyggðin verður að snúa vörn í sókn og laða fólk að staðnum. Til að þetta megi takast sem best þarf að nýta stöðugildi verkefnisstjóra Atvest á svæðinu og hafa virka atvinnumálanefnd að störfum. Þá er mikilvægt að halda úti öflugri unglingavinnu og að unga fólkið okkar eigi kost á sumarvinnu í heimabyggð.

Landbúnaðarmál

Sveitarfélagið þarf að halda vöku sinni yfir nýjum atvinnutækifærum til sveita. Stuðla þarf að áframhaldandi gæðum í sauðfjárrækt á landsvísu. Fjallskil þarf að framkvæma á fullnægjandi hátt og skipuleggja í tæka tíð haust hvert. Refum og minkum þarf að halda niðri á skipulegan hátt og samræmi þarf að vera í þeim málum á öllum svæðum innan sveitarfélagsins.

Skólamál

Grunnskólinn á Hólmavík hefur verið vaxandi á síðustu  árum. Stöðugleiki í starfsmannahaldi er mikill og menntunarstig starfsfólks gott á landsbyggðarmælikvarða. Halda þarf áfram að standa vörð um skólann okkar til að halda þeim árangri sem áunnist hefur. Til þess mætti m.a. efla samstarf við nærliggjandi skóla og halda áfram símenntun starfsmanna. Húsnæðismál skólans þarf að bæta svo og aðstöðu fyrir bókasafn og tónlistarskóla með stækkun skólahúsnæðisins. Einnig að halda áfram að efla skóladagvistun og góða samvinnu skóla- og tómstundastarfs. Leikskólinn hefur einnig verið vaxandi og þarf að hlúa að honum á sama hátt. Stefna þarf að því að starfsfólk þar hafi tækifæri til að sækja menntun á sama hátt og grunnskólakennarar hafa gert síðustu árin. Umhverfi og leiksvæði bæði grunn- og leikskóla þarf að lagfæra og auka öryggi barnanna. Tryggja þarf að dagvistun fyrir börn undir leikskólaaldri sé fyrir hendi. Fjarnámsver og aðstaða til framhaldsskólanáms hefur verið meðal hugðarefna H listans og viljum við halda áfram að fylgja þeim málum eftir.

Skipulags- og húsnæðismál

Þar sem langþráðu takmarki verður náð árið 2008 að fá bundið slitlag frá Ísafirði til Reykjavíkur um Arnkötludal þarf hreppurinn að vera tilbúinn að taka við auknum fólksfjölda og atvinnutækifærum með tilbúnum byggingalóðum á Hólmavík. Til þess þarf m.a. að huga að eignarhaldi fýsilegra byggingasvæða og skipulagi lóða og þar sem hægt er að bæta lóðum við núverandi götur. Þá er rétt að huga að lóðum fyrir sumarbústaðabyggð í sveitarfélaginu, þar sem líkur eru á að eftirspurn eftir þeim myndist með mun styttri aksturstíma frá höfuðborgarsvæðinu. Hólmavíkurhreppur hefur á yfirstandandi kjörtímabili selt töluvert af íbúðarhúsnæði en H – listinn telur ekki rétt að selja mikið meira að svo stöddu þar sem sveitarfélagið þarf alltaf að geta tryggt ákveðinn lágmarksfjölda leiguíbúða. Áfram þarf að þrýsta á bættar samgöngur innan byggðalagsins og huga að frágangi gatna og gangstétta.

Umhverfismál

Það er og verður alltaf svo með umhverfismál að betur má ef duga skal. Halda þarf áfram með fegrun Tangans sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og er andlit gamalgróins íbúahverfis. Þar er sérstaklega brýnt að taka ákvörðun um framtíð Hilmis sem er orðinn hættulegur fólki og umhverfi. Einnig þarf að ljúka frágangi gámasvæðis. Sorpmálum þarf að koma í það horf að það standist nútímakröfur hverju sinni. H-listinn leggur áherslu á að koma sorphaugunum í viðunnandi horf. Halda þarf áfram að ganga frá opnum svæðum sem heyra undir sveitarfélagið og fegra iðnaðarhverfið á Skeiði og veita fyrirtækjum þar sem annars staðar aðhald í þeim efnum. Einnig þarf að hvetja íbúa til áframhaldandi fegrunar, m.a. með því að veita áfram umhverfisverðlaun sem voru endurvakin á Hamingjudögum 2005. Umhverfismálin þurfa að verða okkur öllum metnaðarmál. Það hefur sýnt sig að með átaki má gera fallegt sveitarfélag enn fegurra þannig að það verði íbúunum og héraðinu öllu stolt og sómi.

Félagsleg þjónusta

Stefnt er að áframhaldandi aðkeyptri félagslegri ráðgjafarþjónustu sem gefið hefur góða raun við skólana. H-listinn leggur áherslu á að veita íbúum fullnægjandi félagslega þjónustu og að þjónustustig haldist sambærilegt í sameinuðu sveitafélagi. Efla þarf upplýsingaflæði til eldri borgara um rétt sinn í þessum málum. Áfram þarf að styrkja félagsstarf eldri borgara og heimaþjónustu.

Ferðaþjónusta og landkynning

Starfsemi upplýsingamiðstöðvar og rekstur tjaldsvæðis hefur dafnað síðustu árin og er vilji okkar að svo verði áfram. Uppbygginga vandaðrar ferðaþjónustu er eitt besta vopn sem dreifbýlisfólk hefur í varnarbaráttunni gegn fólksfækkun á landsbyggðinni. Íbúar sveitarfélagsins eru meðvitaðir um þetta og þarf að halda áfram stuðningi við þá starfsemi. Nota þarf hvert tækifæri til að kynna sveitarfélagið, t.d. á sýningum eins og Perlan Vestfirðir. Hamingjudagar á Hólmavík eru að mati H listans góð kynning fyrir sveitarfélagið og eiga eftir að eflast enn frekar. Einnig þarf að halda áfram að efla umfjöllun fjölmiðla um svæðið og efla upplýsingaflæði frá sveitarfélaginu til íbúa.

X – H

Íþrótta- og æskulýðsmál

Stefnt skal að því að ganga frá grasvelli við íþróttamiðstöð og skipuleggja gönguskíðabraut í nágrenni við hann til æfinga að vetrinum. Einnig þarf að leggja göngu- og hjólreiðastíg úr Höfðahverfi í Skeljavík m.a. til að stórminnka slysahættu þeirra fjölmörgu vegfarenda á öllum aldri sem þar eiga leið um. Þetta yrði einnig góð tenging við það útivistarsvæði sem þarna er fyrir og fyrirhugað hefur verið á Víðidalsá. Sveitarfélagið þarf áfram að styðja við fjölbreytt íþrótta –og æskulýðsstarf, enda hefur fátt meira forvarnargildi.

Yfirstjórn og fjármál

Ekki er vitað nákvæmlega hvernig fjárhagsstaða Hólmavíkurhrepps er, þar sem ársreikningur 2005 hefur ekki verið lagður fram. Aðhald í fjármálum hreppsins er brýnt og upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarsjóðs þurfa jafnan að liggja fyrir tímanlega. Það er augljóst mál að hið nýja sveitarfélag mun ekki hafa úr miklu afgangsfé að spila og því þarf að vera stíf forgangsröðun í fjármálum. Nefndarskipan sveitarfélagsins þarf að stokka upp og gera nefndarstörf skilvirkari. Gera þarf kröfu um góða mætingu á fundi nefndanna. Æskilegt er að dreifa nefndarstörfum sem mest á fleiri en sitjandi hreppsnefndarfulltrúa og skapa samræmi í hlutverkum nefndanna. H – listinn vil halda áfram að beita sér fyrir auknu upplýsingaflæði frá yfirstjórn sveitarfélagins, í prentuðu máli sem og á netinu.

Menningar- og félagsmál

Öflugt menningar og félagslíf í héraðinu hefur löngum vakið athygli á landsvísu. Halda þarf áfram að styðja við það. Einnig þarf að styðja áfram við tónlistar-, leiklistar-, og annað félagslíf á svæðinu. Þá hefur H – listinn áhuga á að efla vinabæjartengslin enn frekar. Það er vilji H listans að styðja slíka starfsemi eftir bestu getu.

Ágæti kjósandi!

H – listinn býður fram fólk sem unnið hefur störf til sjávar og sveita og hefur reynslu af atvinnurekstri, sveitarstjórnarmálum og félagsmálum. Það er góður kostur að nýta starfskrafta þeirra sem mynda listann til úrlausna vandasamra verkefna í hinu nýja sveitarfélagi. Öflugur stuðningsmannahópur stendur að framboði H – listans og vill leggja sitt af mörkum til að stuðla að farsælli framtíð byggðarlagsins.

Fylkjum liði á kjördag og kjósum H – listann fyrir hamingjusama framtíð.
 

X – H

Kosningakaffi

Kosningakaffi H – listans

verður í anddyri Félagsheimilisins á kjördag,

27. maí kl 14:00-17:00

 

X – H

Frambjóðendur H lista

 

1

Már Ólafsson

Aldur: 43 ára

Fyrri störf: Hefur átt sæti á lista og komið inn sem varamaður í hreppsnefnd.

Atvinna. Útgerðarmaður.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Jóhönnu B Ragnarsdóttur og eiga tvo syni.

2

Daði Guðjónsson

Aldur: 55 ára

Fyrri störf: Hefur setið í hreppsnefnd tvö kjörtímabil og verið varamaður síðasta kjörtímabil.

Atvinna: Útgerðarmaður.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Kristínu Gunnarsdóttur og eiga þau 5 börn.

3

Jón Stefánsson

Aldur: 58 ára

Fyrri störf: hefur setið í hreppsnefnd Broddaneshrepps.

Atvinna: Bóndi.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Ernu Fossdal og eiga þau 3 börn.

4

Eysteinn Gunnarsson

Aldur: 50 ára

Fyrri störf: Hefur verið oddviti hreppsnefndar og setið í hreppsnefnd síðasta kjörtímabil.

Atvinna: Rafveituvirki.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Jensínu Pálsdóttur og eiga þau 4 börn.

5

Ólöf B Jónsdóttir

Aldur: 45 ára

Fyrri störf: Sat í hreppsnefnd Nauteyrarhrepps og hefur tekið þátt í störfum H-listans á kjörtímabilinu.

Atvinna: Bóndi.

Fjölskylduhagir: Gift Reyni Snæfeld Stefánssyni og eiga þau 3 syni.

 6

Jóhann Áskell Gunnarsson

Aldur: 41 árs

Fyrri störf: Þátttaka í íþróttastarfi og félagsstarfi því tengdu.

Atvinna: Verkstjóri móttöku hjá Hólmadrangi.

Fjölskylduhagir: Giftur Guðrúnu Guðfinnsdóttur og eiga þau 5 börn.

7

Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Aldur: 32 ára

Fyrri störf: Í hreppsnefnd á kjörtímabilinu og ýmis félagsmál.

Atvinna: Grunnskólakennari, fjölmiðlastörf.

Fjölskylduhagir: Gift Alfreð Gesti Símonarsyni og eiga þau 3 syni.

8

Jón Halldórsson

Aldur: 50 ára

Fyrri störf: Bifreiðastjóri.

Atvinna: Landpóstur.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Ingibjörgu Valdimarsdóttur og eiga þau 2 börn.

9

Röfn Friðriksdóttir

Aldur: 40 ára

Fyrri störf: Heimaþjónusta aldraðra.

Atvinna: Nemi og húsmóðir

Fjölskylduhagir: Gift Magnúsi Gústafssyni og eiga þau 6 börn.

10

Ingimundur Pálsson

Aldur: 51 árs

Fyrri störf: Hefur tekið virkan þátt í störfum H listans og Björgunarsveitarstörfum og verið formaður foreldrafélagsins.

Atvinna: Línumaður.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Ágústu Ragnarsdóttur og eiga þau 2 syni.