22/12/2024

Starfsemi Björgunarsveitar kennd í Grunnskóla

Nú í dag var fyrsti kennsludagurinn í valáfanganum Útivist – Björgunarsveit sem kenndur er í Grunnskóla Húnaþings vestra og er Björgunarsveitin Húnar samstarfsaðili skólans. Áfanginn er kenndur nú á haustönn og það eru 15 nemendur skráðir. Kennari er Magnús Eðvaldsson sem einnig er félagi í Björgunarsveitinni Húnum (www.123.is/hunar). Þetta er eftir því sem best er vitað í fyrsta skipti sem svona kennsla fer fram í grunnskóla hér á landi.

Í dag voru krakkarnir sóttir á björgunarsveitarbílum í skólann á Laugarbakka og var farið með þau í Húnabúð á Hvammstanga. Þar var farið yfir með þeim starfsemi björgunarsveitarinnar og fleira. Að því loknu fengu þau að skoða sig um í Húnabúð, en félagar í björgunarsveitinni sýndu þeim búnað. Að tímanum í Húnabúð loknum var haldið til baka á Laugarbakka þar sem litið var við í Reykjaborg og tækin þar skoðuð.

Krakkarnir við Reykjaborg á Laugarbakka – ljósm. www.123.is/hunar