Talsverður urgur er í fólki við Steingrímsfjörð eftir ákvörðun KB banka að leggja niður starf útibússtjóra við KB banka á Hólmavík, sem er gert í skjóli einhversskonar hagræðingar. Útibússtjóri fyrir Búnaðarbankann á Hólmavík og síðar KB banka hefur ávallt búið á staðnum en íbúar hafa sérstakar áhyggjur af því að ekki aðeins lækki þjónustustigið heldur ekki síður að vel launað starf á mælikvarða landsbyggðarinnar hverfur af svæðinu , en útibússtjóri KB banka í Búðardal sér einnig um rekstur KB banka á Hólmavík í framtíðinni. Það hefur borist strandir.saudfjarsetur.is til eyrna að nokkrir aðilar hyggist mótmæla breytingunum með sérstökum aðgerðum en ekki er enn vitað til hvaða ráða þeir hyggjast grípa.
Búnaðarbankinn opnaði útibú á Hólmavík árið 1972 og starfaði fyrst um sinn á Hafnarbraut 37, þar sem nú er húsnæði Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Jón Kristinsson var lengst af útibússtjóri bankans á Hólmavík en Þorbjörg Magnúsdóttir lét af störfum um síðustu mánaðarmót. Núverandi útibússtjóri KB banka á Hólmavík heitir Stefán Jónsson og er með aðsetur og skrifstofu í Búðardal.