30/10/2024

Spunakvöld og Hrútfirðingaball

Eins og venjulega er ýmislegt um að vera um helgina á Ströndum. Hæst ber Spunakvöld hjá Leikfélagi Hólmavíkur sem haldið verður í Bragganum á Hólmavík laugardagskvöldið kl. 20:30. Þar reyna leikfélagar með sér í leikhússporti eða spunaleik og allir sem áhuga hafa á góðri skemmtun mæta og fylgjast með. Slíkt kvöld var einnig haldið fyrir ári og var mikið fjör þar sem fjögur lið kepptu hvert við annað í spunaleik eins og fræðast má um á vefsíðu Leikfélags Hólmavíkur.


Einnig er á laugardagskvöldið Hrútfirðingaball sem er haldið í Kiwanissalnum, Engjateigi 11 í Reykjavík. Hljómsveitin Í gegnum tíðina heldur uppi fjörinu og eru allir Hrútfirðingar hvattir til að mæta, rifja upp gömul kynni og skemmta sér í góðum félagsskap. Húsið opnar klukkan 20:30. Nánari upplýsingar gefur Atli Vilhjálmsson frá Kollsá í símum 897-1852, 587-8852 og 575-1261.