22/11/2024

Spennandi spurningakeppni

Viðureignir í Spurningakeppni Strandamanna á Hólmavík um helgina voru bæði jafnar og spennandi. Það voru Sparisjóður Strandamanna, Kaupfélag Steingrímsfjarðar og Hólmadrangur sem tryggðu sér sæti í 6 liða úrslitunum í keppnum kvöldsins sem allar voru jafnar og spennandi. Jón Jónsson var spyrill á keppninni og naut dyggrar aðstoðar frá Kristjáni Sigurðssyni sem var tæknimaður, tímavörður og yfirdómari, Ester Sigfúsdóttur sem var stigavörður og Matthíasi Lýðssyni sem var yfirsetumaður. Í hléi tróðu Vilhjálmur Jakob og Agnes Jónsdóttir upp og sungu þrjú lög.

Fyrsta keppni kvöldsins var á milli Félags eldri borgara og Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Fyrir fyrra liðið kepptu Guðfinnur Finnbogason, Maríus Kárason og Áskell Benediktsson, en fyrir KSH kepptu Ragnheiður Ingimundardóttir, Sigurður Vilhjálmsson og Bryndís Sveinsdóttir. Keppnin var mjög jöfn og spennandi og úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu vísbendingaspurningu. Staðan í leikslok var 15-14 fyrir KSH.

Í annarri keppni kvöldsins var ekki minni spenna og aftur réðust úrslitin í síðustu vísbendingaspurningu. Þar bar lið Sparisjóðs Strandamanna, sem var skipað þeim Guðmundi B. Magnússyni, Svanhildi Jónsdóttur og Þorbjörgu Stefánsdóttur, sigurorð af liði Skrifstofu Hólmavíkurhrepps sem var skipað Ásdísi Leifsdóttur, Salbjörgu Engilsbertsdóttur og Láru Jónsdóttur. Leikar fóru 15-16 fyrir Sparisjóðinn, en fyrir þessa keppni töldu margir að lið Skrifstofu Hólmavíkurhrepps væri í hópi þeirra liða sem væru líklegust til að standa uppi sem sigurvegarar í keppninni þetta árið.

Lokakeppnin varð ekki síður spennandi, en í henni sigraði lið Hólmadrangs lið Strandahesta 22-17. Úrslitin réðust þó ekki fyrr en í vísbendingaspurningum og bæði lið sýndu góðan árangur, sérstaklega í hraðaspurningum sem þau komust mun lengra í en önnur lið sem kepptu um kvöldið. Í liði Hólmadrangs kepptu Pétur Matthíasson, Björn Hjálmarsson og Þröstur Áskelsson, en fyrir lið Strandahesta kepptu Jón Örn Haraldsson, Victor Örn Victorsson og Haraldur V.A. Jónsson.  

Næsta keppniskvöld fer fram eftir hálfan mánuð, sunnudaginn 26. febrúar og hefst kl. 20:00. Jón Halldórsson smellti af þeim myndum sem fylgja þessari frétt.