30/10/2024

Sókn í byggðamálum í Norðvesturkjördæmi

Aðsend grein: Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi
Kjördæmisfundur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi haldinn í Ólafsvík 10. mars 2007 telur brýnasta verkefni flokksins við komandi alþingiskosningar að leiða til valda ríkisstjórn jafnréttis og velferðar undir forystu Samfylkingarinnar. Sú ríkisstjórn mun leysa úr læðingi þá auðlegð og þann kraft sem býr í fólki, félagasamtökum og fyrirtækjum í Norðvesturkjördæmi.

Mikilvægustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar eru:
 
1. Endurreisn velferðarkerfisins
með bættum hag fjölskyldufólks, jafnrétti í atvinnulífi og á heimili, stórbættri afkomu öryrkja og aldraðra.
                     
2. Jafnrétti kynjanna í reynd
með stórauknum áhrifum kvenna á öllum sviðum og afnámi launamisréttis
því lýðræðislegt samfélag byggir á jafnri þátttöku allra.
 
3. Sókn í byggðamálum
með því að jafna stöðu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og tryggja rétt allra til samgangna, fjarskipta, menntunar og afkomu, hvar á landinu sem fólk býr.
 
4. Ný hugsun í atvinnumálum
með því að treysta grundvöll nýsköpunar í öllum atvinnugreinum, tryggja jafnvægi og stöðugleika í þjóðfélaginu og jafna aðgang þjóðarinnar að auðlindum landsins.
 
5. Sátt um umhverfismál, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda
með því að viðurkenna umhverfismál sem eitt mikilvægasta mál samtímans, styrkja stöðu umhverfisverndar
 
Vanrækslusyndir núverandi ríkisstjórnarflokka hafa bitnað harkalega á íbúum landsbyggðarinnar, sérstaklega á Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Sinnuleysi í atvinnumálum, áhugaleysi í byggðamálum og úrræðaleysi í samgöngumálum hafa leitt af sér mestu byggðaröskun sem þjóðin hefur upplifað. Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi vill leysa þjóðina undan oki eyðibyggðastefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og innleiða nýja stjórnarhætti undir merkjum frelsis, jöfnuðar og réttlætis.