22/12/2024

Snæugla á Ströndum

Undanfarið hafa allnokkrir heimamenn haft samband við strandir.saudfjarsetur.is til að segja frá því að þeir hafi séð snæuglu á Ströndum. Enginn hefur þó komist í annað eins færi við uglurnar og Björn Arnarson fuglaáhugamaður á Höfn í Hornafirði sem er einn af þeim sem tengist vefnum www.fuglar.is. Hann er hér á ferðalagi og kom færandi hendi til vefjarins með myndir sem hann tók á um það bil 15 metra færi af annarri af tveimur snæuglum sem hann sá á heiðum uppi. Staðfest er að snæugla verpti á Ströndum árið 1999 og menn hafa haft grun um að hún hafi einnig verpt hér á svæðinu síðar.

Snæuglan er stórglæsilegur fugl og gaman væri ef hún næði að festa rætur á Ströndum – ljósm. Björn Arnarson