04/10/2024

Smábæjarleikar á Blönduósi

Góður hópur frá Geislanum á Hólmavík mætti á fótboltamótið Smábæjarleikana á Blönduósi og keppti þar með Kormáki á Hvammstanga. Var mótið bráðskemmtilegt, bæði fyrir foreldra og iðkendur, en í ár tóku samtals 6 lið frá Kormáki og Geislanum þátt, 2 lið í 4. flokki, 1 lið í 5. flokki, 2 lið í 6. flokki og 1. lið í 7. flokki. Alls voru 48 keppendur. Mótið var sett laugardaginn 21. júní kl. 8:45 og hófust leikir strax eftir setningu. Þann dag voru spilaðir um 120 leikir og átti Kormákur/Geislinn um 25 leiki. Þetta var erfiður dagur og stóðu leikir til 19:00. Um kvöldið var í boði fyrir krakkana að fara í bíó og smá skemmtidagskrá í íþróttahúsinu.

Yngri hópurinn sofnaði snemma, enda var þetta langur og strangur dagur. Yfirleitt hefur fyrirkomulag verið þannig að Geislamenn gista annað hvort í skólanum eða á tjaldstæðinu, en Kormáksmenn keyra á milli Hvammstanga og Blönduóss.

Sunnudagurinn hófst snemma og var mæting upp á völl klukkan 8:30. Krakkarnir spiluðu mjög vel og voru þau sátt með daginn. Eftir leikina var verðlaunaafhending og fengu allir verðlaunapening og snyrtitösku merkta Smábæjarleikunum. Eitt lið hjá Kormáki/Geislanum komst á verðlaunapall og var það 7. flokkurinn. Annars stóðu keppendurnir stóðu sig allir mjög vel, sýndu góðan árangur og voru til sóma. Eins var alveg frábært að sjá hvað foreldrar voru duglegir að hvetja krakkana áfram.

 Kormákur/Geislinn

frettamyndir/2008/580-fotb-blond3.jpg

frettamyndir/2008/580-fotb-blond1.jpg

Lið Kormáks/Geislans á Smábæjarleikunum – ljósm. Birgitta Maggý