11/09/2024

Slitlagi á Drangsnesveg fagnað

Borgarverk lauk á dögunum vinnu við að leggja bundið slitlag á u.þ.b. 6 kílómetra kafla frá slitlagsenda við Drangsnes alla leið að Kleifum á Selströnd. Þar með er meirihluti leiðarinnar milli Drangsness og Hólmavíkur kominn með bundið slitlag og full ástæða til að fagna og óska Strandamönnum öllum hjartanlega til hamingju með þetta. Framundan eru frekari aðgerðir við að leggja bundið slitlag á veginn á næstu árum, en nú eru um það bil 14,5 km af 33 á milli Drangsness og Hólmavíkur ennþá malarvegur.

Búið er að skipta fjármagni á einstaka tengivegi til ársins 2008 og er gert ráð fyrir nokkru framlagi í Drangsnesveg frá Drangsnesi að Hálsgötugili þar sem vegurinn liggur upp á Bjarnarfjarðarháls á þeim tíma. Skiptist það þannig að áætlaðar eru 23 milljónir í veginn á árinu 2006, 60 milljónir 2007 og 44 milljónir 2008. Í ár hefur þegar verið unnið í 1,4 km sem var tekin af fjárveitingu næsta árs, þannig að búast má við mestum þunga í framkvæmdunum 2007 og 2008. Það ár ætti að vera komið bundið slitlag frá Drangsnesi að vegamótunum við Hálsgötugil sem er samtals um 16 km og 7,5 km ennþá malarvegur. Vegagerðinni sjálfri er þó lokið á þeim kafla að mestu.

Frá Hálsgötugili að vegamótum við Staðará er hins vegar töluverð vegagerð eftir og malarvegur. Þar verður legu vegarins væntanlega breytt við Bassastaði og við Stakkanes og Grænanes þarf að fást við mjög snjóþungt svæði. Samkvæmt vegaáætlun er fyrst lagt fé í þennan veg 2008 og þá einungis 16 milljónir.

Sé litið á Strandir sem eitt heildstætt svæði og hætt að hugsa í einstökum hreppum hljóta menn nú eftir að fjármagn er fengið í veg um Arnkötludal að leggja töluverða áherslu á að framkvæmdum þarna verði hraðað og vegabótum um Bjarnarfjarðarháls verði um leið komið inn á áætlun. Umbætur á þessum vegarhluta myndi koma byggð, atvinnulífi og ferðaþjónustu í Árneshreppi og Bjarnarfirði mjög til góða, sem aftur hefur umtalsverð jákvæð margfeldisáhrif fyrir þéttbýlis- og þjónustukjarnana við Steingrímsfjörð.

Frá vegamótum við Staðará til Hólmavíkur eru rúmir 10 kílómetrar sem lagðir eru bundnu slitlagi og líkur þá ferð okkar í þessari fréttaskýringu frá Drangsnesi til Hólmavíkur.