26/04/2024

Slæmar samgöngur fyrirstaða

Slæmar samgöngur á Ströndum hafa örugglega haft töluverð áhrif á niðurstöðu í kosningum um sameiningu sveitarfélaga. Það hlýtur að teljast eðlilegt að mönnum vaxi í augum að sameina svæði sem ekki er hægt að ferðast um allt árið. Staða Árneshrepps er reyndar algjörlega einstök á landsvísu – engin önnur sveit á Íslandi þarf að búa við að landleiðin þangað lokist í margra mánuði yfir háveturinn og ekkert sé gert í að breyta því. Helst má líkja stöðu Mjóafjarðar á Austurlandi við Árneshreppinn síðustu áratugina. 

Þrátt fyrir fögur orð, þingsályktanir, nefndir og skýrslur sem unnar hafa verið um stöðu Árneshrepps virðist engar áþreifanlegar framkvæmdir vera í gangi sem varða málefni svæðisins. Þær vonir sem þingsályktunartillaga þingmanna vöktu fyrir fáum árum virðast vera að daga uppi í Forsætis- og Iðnaðarráðuneyti.

Seinagangur í samgöngumálum á Ströndum kemur víðar fram en á leiðinni frá Bjarnarfjarðarhálsi að Gjögri. Á milli allra nálægra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum er nú vegur með bundnu slitlagi, nema á leiðinni milli Drangsness og Hólmavíkur. Á þeirri leið verður enn töluverður tími í bundna slitlagið árið 2008 þegar núverandi vegaáætlun líkur. Sunnan Hólmavíkur er síðan Ennisháls sem er í miðjum Broddaneshreppi helsti farartálminn, en þar er mokað 6 sinnum í viku af Vegagerðinni yfir veturinn.

Þrátt fyrir að Strandamenn hafi nýlega fengið vilyrði um veg um Arnkötludal á næstu árum, hljóta þeir að spyrja sig hvað íbúar svæðisins hafi til saka unnið að vera settir jafn aftarlega á merina og verið hefur síðustu áratugina hvað varðar vegabætur innan svæðisins.