Ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is var á dögunum að bögglast við að lýsa með orðum þeim breytingum sem yrðu á vegstæðinu um Hrútafjarðarbotn við vegagerðina sem nú hefur verið boðin út. Góðhjartaður lesandi sendi síðan vefnum skýringarmynd sem hann hafði fundið á vef Vegagerðarinnar, enda segir góð mynd stundum meira en þúsund orð. Vegstæðinu verður breytt þannig að hringvegurinn fylgir veginum norður á Strandir frá Brú og norður fyrir Selá við Fögrubrekku þar sem búið er að setja tvíbreiða brú. Þaðan liggur vegurinn yfir fjarðarbotninn austan við húsin á Fjarðarhorni. Vegurinn norðan af Ströndum verður síðan tengdur inn á hringveginn á nýjum stað fyrir miðjum botni Hrútafjarðar og lengist því leiðin fyrir Hrútfirðinga suður yfir Holtavörðuheiði lítið eitt, en styttist til Norðurlands.
Rétt er að benda á að eftir að nýr vegur um Öxnadalsheiði var opnaður fyrir umferð er brúin yfir Síká síðasta einbreiða brúin milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hún verður ekki lengur hluti af hringveginum eftir vegagerðina um Hrútafjarðarbotninn.
Kort af vef Vegagerðarinnar – www.vegagerdin.is