30/10/2024

Skyndihjálparnámskeið á Borðeyri

Dagana 7. og 8. febrúar síðastliðinn var haldið námskeið í skyndihjálp í skólanum á Borðeyri. Gunnar Jónsson frá Hólmavík hafði veg og vanda af þessu námskeiði. Sérstök áhersla var lögð á að starfsfólk skólans og skólabílstjórar mættu á námskeiðið, en það var opið öllum. Allir starfsmenn skólans mættu og annar skólabílstjórinn, en þar fyrir utan mættu tvær konur. Samtals voru níu manns á námskeiðinu, tveir karlar og sjö konur.

Aðspurður sagðist Gunnar hafa verið mjög ánægður með þetta námskeið, mætingin hefði verið góð og ekki hefði vantað áhugann hjá námsmönnum. Það eina sem mætti kannski setja út á, var að áhuginn var svo mikill að stundum hefði dregist að hann hefði fengið að éta.

Að loknu námskeiðinu fengu þátttakendur skírteini í hendur sem sýnir að þeir hafi lokið grunnnámi í skyndihjálp. Gunnar sagði nauðsynlegt að halda svona námskeið með reglulegu millibili og stefnt væri á að halda framhaldsnámskeið í skyndihjálp á Borðeyri á hausti komanda.

Á námskeiðinu sýndi Gunnar nýtt hjartastuðtæki sem er mjög auðvelt í notkun. Tæki þetta hefur víða sannað notagildi sitt og tvímælalaust bjargað mannslífum sagði Gunnar.

Nú hafa konur í kvenfélaginu Iðunni í Bæjarhreppi hrundið af stað söfnun í Bæjarhreppi um kaup á slíku tæki. Tækið hefur verið pantað og von er á því innan skamms. Stefnt er að því að tækið verði í nýjum björgunarbíl Káraborgar í Bæjarhreppi. Þess má einnig geta að áhugi er á að líka verði keypt súrefnistæki, sem verði þá staðsett í sama bíl.  

Ljósm. Einar Esrason