14/09/2024

Ályktanir úr Dalabyggð

dalir.isSveitarstjórn Dalabyggðar hefur sent frá sér ályktanir sem gerðar voru á síðasta sveitarstjórnarfundi um baráttumál og áherslur sveitarfélagsins og fylgja þær hér að neðan. Í annarri er fjallað um öryggi í raforkudreifingu, en hinni hvernig staðið verði að endurnýjun á brúnni yfir Laxá sem er rétt sunnan Búðardals. Þar er varasöm einbreið brú sem á að skipta út fyrir nýja. Framkvæmdir við breikkun standa nú yfir við brúna yfir Tunguá nokkru sunnar í Dölunum, en báðar eru þær á Vestfjarðavegi. Eftir standa þá 4 einbreiðar brýr á veginum frá Króksfjarðarnesi og inn á hringveginn, en íbúar við Steingrímsfjörð og norðar á Ströndum munu kynnast þessari leið betur eftir að vegur um Arnkötludal opnast.

Ályktun Dalabyggðar um rafmagnsmál:

"Þann 22. júlí sl. fór rafmagn af stórum hluta Dalabyggðar vegna bilunar. Rafmagnslaust var í á fjórðu klukkustund. Um var að ræða bilun í austari línu og ef allt væri eðlilegt hefði vestari lína um Skógarströnd átt að taka við. Það gerðist ekki þar sem línan um Skógarströnd var einnig biluð og þar sem hún er komin vel til ára sinna er varla hægt að gera ráð fyrir henni sem varalínu þegar bilun kemur upp.

Það er algjörlega ólíðandi að íbúar og fyrirtæki þurfi að búa við það ástand á 21. öldinni að rafmagn sé jafn ótryggt og raun ber vitni í Dalabyggð. Þorri fyrirtækja eru matvælafyrirtæki sem eru viðkvæm fyrir ótryggum raforkuflutningum. Nauðsynlegri endurnýjun á línum hefur ekki verið sinnt. Ennfremur þarf að hraða uppbyggingu þriggja fasa rafmagns í dreifbýli. Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á stjórn Rarik og stjórnvöld að finna viðunandi lausn þessara mála án tafar."

Ályktun um brú yfir Laxá í Dölum

"Sveitarstjórn Dalabyggðar beinir því til Vegagerðarinnar í tengslum við fyrirhugaða brú yfir Laxá i Dölum, við Vestfjarðarveg númer 60, að gert verði ráð fyrir umferð gangandi fólks og hestamanna yfir brúnna. Í gögnum sem sveitarstjórn hefur undir höndum virðist ekki vera gert ráð fyrir þessu. Fyrirhuguð brú er staðsett í jaðri þéttbýlis og umferð veiðimanna, hestamanna og annarra gangandi vegfarenda er umtalsverð. Sveitarstjórn gerir athugasemdir við hönnun brúarinnar eins og hún kemur fyrir í umræddum gögnum. Það er krafa sveitarstjórnar Dalabyggðar að Vegagerðin taki tillit til umferð gangandi vegfarenda og hestamanna þegar endurnýja á brýr á svæðinu."