23/12/2024

Skráning jarðhitastaða á Ströndum

Hjá Íslenskum orkurannsóknum er nú í gangi vinna við skráningu allra jarðhitastaða í Strandasýslu. Verkið hófst síðastliðið haust, en þá var kannaður jarðhiti frá Hvalá í Ófeigsfirði og suður fyrir Asparvík. Allmargir áður óþekktir jarðhitastaðir fundust við þessa yfirferð. Í vor verður haldið áfram og kortlagður af nákvæmni jarðhiti í Bjarnarfirði og svo suður sýsluna. Verkið felst í því að GPS-mæla alla staðina, þeim er lýst nákvæmlega, hiti mældur og rennsli áætlað. Einnig eru teknar ljósmyndir af þeim öllum, en verkefnið er unnið fyrir Orkustofnun.

Markmiðið er að kanna umfang og dreifingu jarðhita í sýslunni og tryggja að hægt verði að ganga að stöðunum vísum í framtíðinni. Töluvert hefur borið á því að það fyrnist yfir staðina eftir að jarðir falla úr ábúð. Það hlýtur að teljast mjög þýðingarmikið að vita góð deili á dreifingu jarðhitans og eðli hans, enda er jarðhitinn ein mesta auðlind Íslendinga. Nú eru um 90% allra húsa í landinu hituð upp með jarðhitavatni.

Kort af jarðhitastöðum á Ströndum