13/10/2024

Skrafað og skeggrætt um refaveiðar

Rebbi rænir tjaldseggiEftir að fram kom að fyrirhugað var að fella styrk ríkisins til refaveiða að upphæð 17 milljónir út úr fjárlögum 2010 hafa verið líflegar umræður um refastofninn, veiðimennsku, rannsóknir og jafnvel verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Æðarbændur og sauðfjárbændur hafa mótmælt kröftuglega og óttast að refaveiðar leggist af og sveitarfélög á landsbyggðinni hafa sum hver ályktað um málið. Fram hefur komið framlag ríkisins skili sér til baka með virðisaukaskatti og að afleiðingar geti verið ófyrirséðar verði refaveiðum hætt, t.d. varðandi ýmsar tegundir mófugla. Sveitarfélagið Dalabyggð hefur sýnt sig í að vera nokkuð vel vakandi gagnvart mörgum málum á landsvísu og sendi Byggðaráð Dalabyggðar frá sér eftirfarandi ályktun:

Byggðarráð Dalabyggðar mótmælir því skipulagsleysi sem
einkennt hefur stjórn refaveiða á Íslandi um langt árabil. Engin heildstæð sýn
hefur verið á málaflokknum og samræmdar aðgerðir sveitarfélaga og ríkis nær
engar. Ákvörðun umhverfisráðuneytisins nú að hætta að greiða verðlaun fyrir
veidd dýr er skýrt dæmi um þessi vinnubrögð.

Byggðarráð Dalabyggðar
leggur til að nýtt skipulag verði tekið upp. Ráðnir verði veiðimenn sem heyri
beint undir veiðimálastofnun og komi þeir til með að sinna grisjun refastofnsins
á öllu landinu. Veiðar miðist fyrst og fremst við varplönd fugla og önnur
viðkvæm svæði í vistkerfinu. Lagt verði af það fyrirkomulag að einstök
sveitarfélög ráði því hvort þau borgi verðlaun fyrir refaveiðar eða ekki. Slíkt
fyrirkomulag þjónar engum tilgangi og veiðum verður í rauninni sjálfhætt haldi
það áfram.

Byggðarráð Dalabyggðar fullyrðir að með nýju fyrirkomulagi má
ná víðtækri sátt. Offjölgun á einum stað og útrýming á öðrum gerir hins vegar
ekkert gagn.