12/12/2024

Skólahald og kveðskapur í Dalbæ á Snæfjallaströnd

Laugardaginn 15. ágúst kl. 18:00 verður opnuð sýning á vegum Snjáfjallaseturs um skólahald í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu í húsakynnum heimangönguskólans sem var á Lyngholti á Snæfjallaströnd á árunum 1936-1947. Skólahúsið á Lyngholti hefur nú verið gert upp og er í göngufæri við samkomuhúsið Dalbæ þar sem einnig verður kvæðadagskrá kl 20 á vegum Snjáfjallaseturs. Þar verður kynnt útgáfa á geisladiskinum Heyrði ég í hamrinum, en þar heyrast raddir fyrrum ábúenda á Ströndinni sem kveða og segja frá ýmsum þjóðlegum fróðleik.

Upptökurnar voru gerðar af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Rósa Þorsteinsdóttir heldur erindi um söfnun þjóðfræðiefnis og kveðskapar á vegum Stofnunar Árna Magnússonar og Ása Ketilsdóttir og Steindór Andersen munu kveða formannavísur, sveitavísur, barnagælur og fleira. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.