22/12/2024

Skilafrestur í lagasamkeppni framlengdur

Skilafrestur fyrir lagasamkeppni Hamingjudaga hefur verið framlengdur um nokkra daga, en nýji skilafresturinn er nú föstudagurinn 16. maí. Dagsetningu á lagasamkeppninni hefur einnig verið breytt, en hún mun nú fara fram miðvikudagskvöldið 21. maí, að því gefnu að fleiri en þrjú lög berist í keppnina, en ef færri en þrjú berast velur sérvalin dómnefnd sigurlagið. Að sögn Brynju Bjarnfjörð Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, er þetta kjörið tækifæri fyrir laga- og textahöfunda til að láta ljós sitt skína – lengri skilafrestur gefi fleirum færi á að taka þátt og þeir sem þegar eru búnir að semja fá tækifæri til að fínpússa lögin sín. Reglur keppninnar má nálgast hér.

Undirbúningur fyrir Hamingjudagana, sem fara fram helgina 27.-29. júní í ár er annars að komast á fullt skrið að sögn Brynju. Verið er að semja við skemmtikrafta og hljómsveit um að mæta á svæðið, en einnig hefur Brynja kallað eftir ljósmyndum eða hreyfimyndum frá Hólmavík fyrri tíma. Hægt er að koma allra handa myndum til hennar í skönnun, en einnig má senda skannaðar myndir í netfangið hamingjudagar@holmavik.is.