22/12/2024

Skilafrestur að renna út

Nú er hver að verða síðastur með að sækja um stuðning við menningarverkefni hjá Menningarráði Vestfjarða við síðari úthlutun ráðsins 2011. Umsóknarfrestur vegna seinni úthlutunar ársins 2011 rennur út á miðnætti fimmtudaginn 6. október. Menningarráð Vestfjarða auglýsir eftir umsóknum um styrki til menningarverkefna á grundvelli samnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Hægt er að sækja um stuðning við hverskyns menningarverkefni, svo framarlega sem umsókn eða verkefni stangast ekki á við úthlutunarreglur sem samþykktar eru við hverja úthlutun. Umsóknir og verkefni hverju sinni eru borin saman á samkeppnisgrundvelli.

Menningarráð Vestfjarða hefur ákveðið að við seinni úthlutun ársins 2011 verði horft sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:

# Verkefni sem efla samstarf á sviði menningarmála á Vestfjörðum.
# Verkefni sem stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í menningartengdum verkefnum.
# Verkefni sem fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar.
# Menningarstarfsemi sem styður við ferðaþjónustu.
# Verkefni sem stuðla að þátttöku barna og unglinga í listsköpun og menningarstarfi.

Umsóknarfrestur er til miðnættis fimmtudaginn 6. október. Úthlutun fer fram í nóvember. Umsóknum skal skilað til Menningarráðs Vestfjarða á til þess gerðu eyðublaði eða í gegnum umsóknarform á vef Menningarráðs Vestfjarða – www.vestfirskmenning.is – undir tenglinum Styrkir. Umsækjendur eru eindregið hvattir til að kynna sér úthlutunarreglur Menningarráðs á sama stað og þar má nálgast lista um verkefni sem styrkt hafa verið við fyrri úthlutanir.

Vakin er athygli á þeirri breytingu að fylgiskjöl með umsóknum eru nú afþökkuð, allt sem skiptir máli á að koma fram í umsókninni sjálfri.

Allar nánari upplýsingar veitir Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða í síma 891-7372 eða í netfanginu menning@vestfirdir.is.