Afmælismót Friðriks Ólafssonar verður haldið í Djúpavík á Ströndum laugardaginn 19. júní, og markar hápunkt skákhátíðar í Árneshreppi. Mótið á laugardaginn hefst klukkan 13 í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Það er opið öllum skákáhugamönnum og eru börn sérstaklega velkomin. Meðal keppenda verða stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson, og sjálf goðsögnin Friðrik Ólafsson. Við upphaf mótsins munu Melasysturnar Árný og Ellen Björnsdætur syngja, og síðan mun Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra setja mótið.
Friðrik ruddi brautina þegar hann varð stórmeistari árið 1958, fyrstur Íslendinga. Hann var lengi í hópi sterkustu skákmanna heims, og lagði fleiri heimsmeistara að velli en nokkur annar Íslendingur.
Skákhátíð í Árneshreppi hefst í kvöld, föstudag, með tvískákmóti í Djúpavík. Þar eru tveir saman í liði og ævintýramennskan í fyrirrúmi. Afmælismót Friðriks verður svo haldið með pompi og pragt á laugardag, og í hádeginu á sunnudag verður efnt til hraðskákmóts í Kaffi Norðurfirði.
Árneshreppur er nyrsti hreppur Strandasýslu. Þar er einstök náttúrufegurð, fjölbreytt mannlíf og söguslóðir við hvert fótmál. Nánari upplýsingar á www.skakhatid.blog.is.