22/11/2024

Skákhátíð á Ströndum


Næstu daga verður haldin gríðarmikil skákhátíð á Ströndum og hefst með fjöltefli í Hnyðju á Hólmavík (Þróunarsetrinu, Höfðagötu 3) á föstudag kl. 16:00. Allir eru þar hjartanlega velkomnir. Áfram heldur svo skákhátíðin í Árneshreppi á föstudagskvöldið með tvískákarmóti í DjúpavíkAfmælismót Jóhanns Hjartarsonar verður haldið í samkomuhúsinu í Trékyllisvík á laugardaginn og Afmælismót Böðvars Böðvarssonar verður haldið á Norðurfirði á sunnudag. Þetta er sjötta skákhátíðin á Ströndum, sem hefur unnið sér sess sem fastur liður í skákdagatalinu. Fjórir stórmeistarar eru skráðir til leiks, auk margra öflugra meistara og áhugamanna úr öllum áttum.

Föstudaginn 21. júní klukkan 16 verður fjöltefli í Hólmavík, á sama stað og í fyrra, í Hnyðju (Þróunarsetrinu). Um kvöldið verður hið vinsæla tvískákarmót haldið á Hótel Djúpavík. Staðarhaldarar í Djúpavík bjóða gestum hátíðarinnar upp á sérstakt tilboð á gistingu og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband sem fyrst. Þá verður sérstakt tilboð á ljúffengu hlaðborði, áður en taflmennska hefst á föstudagskvöldið, og eru gestir hvattir til að setjast að veisluborði saman.

Laugardaginn 22. júní verður svo efnt til Afmælismóts Jóhanns Hjartarsonar stórmeistara, sem varð fimmtugur fyrr á árinu, í samkomuhúsinu í Trékyllisvík. Meðal keppenda verða stórmeistararnir Jóhann, Helgi Ólafsson, Henrik Danielsen og Jón L. Árnason. Af öðrum kunnum köppum má nefna Guðmund Gíslason, Róbert Lagerman, Sævar Bjarnason, Gunnar Björnsson og ungu ljónin Hilmi Frey Heimisson, Vigni Vatnar Stefánsson, Jón Kristin Þorgeirsson, Heimi Pál Ragnarsson.

Heildarverðlaun á mótinu verða 100 þúsund krónur, auk fjölda veglegra aukavinninga. Sigurvegarinn fær auk þess í sinn hlut listaverk eftir Guðjón Kristinsson frá Dröngum.

Um kvöldið verður svo efnt til hins árlega ,,landsleiks“ heimamanna úr Ungmennafélaginu Leifi heppna og aðkomumanna og að leik loknum verður grill og varðeldur.

Sunnudaginn 23. júní lýkur hátíðinni í Norðurfirði með Afmælismóti Böðvars Böðvarssonar, hinnar gamalreyndu skákkempu, sem verður 77 ára þennan dag. Böðvar þarf vart að kynna fyrir skákáhugamönnum, en skákferill hans spannar áratugi.

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband sem fyrst við Hrafn Jökulsson í hrafnjokuls@hotmail.com eða Róbert Lagerman í chesslion@hotmail.com.

Árneshreppur á Ströndum er afskektasta en að margra mati landsins fegursta sveit. Skákfélagið Hrókurinn stendur að hátíðinni sjötta árið í röð, en félagið hefur að auki efnt til skákviðburða í Árneshreppi í rúman áratug. Mótshaldarar hlakka til að hitta gamla vini og nýja á skemmtilegri hátíð!

Allir eru velkomnir á Skákhátíð á Ströndum, og er þáttaka ókeypis.