Á vefnum www.litlihjalli.is er frá því sagt að fjöldi keppenda er skráður til leiks á Skákhátíð í Árneshreppi á Ströndum, 17.-19. júní. Hátíðin hefst með tvískákmóti í Djúpavík föstudagskvöldið 17. júní, daginn eftir er komið að atskákmóti í Djúpavík og á sunnudaginn verður að
vanda hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði. Keppendum er í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt í einum,
tveimur eða þremur viðburðum. Þátttaka er í öllum tilvikum ókeypis.
Verðlaunapottur er 100 þúsund krónur, en fjöldi annarra
glæsivinninga er í boði, allt frá bókum og geisladiskum til dýrgripa frá
Úsbekistan og Eþíópíu. Síðast en ekki síst geta heppnir keppendur nælt sér í
muni úr rekaviði eða hannyrðir heimamanna á Ströndum.
Sérstök athygli keppenda er vakin á tveimur verðlaunaflokkum, þar
sem allir eiga jafna möguleika: Verðlaun fyrir best klædda keppandann og
háttvísasta keppandann.
Meðal keppenda eru Jóhann Hjartarson stórmeistari, Gunnar
Björnsson forseti Skáksambands Íslands, og meistararnir Róbert Lagerman, Stefán
Bergsson, Björn Ívar Karlsson, Guðmundur Gíslason, Sævar Bjarnason, Rúnar
Sigurpálsson o.fl.
Nýir keppendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst í hrafnjokuls@hotmail.com eða
chesslion@hotmail.com.
Nánari upplýsingar veitir Hrafn í síma 695-0205 eða Róbert í 696-9658.