Eitt þeirra verkefna sem hlaut umhverfisstyrk úr Samfélagssjóði Landsbankans 21. júní sl. var hreinsun strandlengjunnar á austanverðum Vestfjörðum sem sjálfsboðaliðasamtökin SEEDS á Íslandi standa fyrir. Hreinsunarstarf er þegar hafið í Reykjarfirði en styrkurinn nýtist til að senda 12-16 sjálfboðaliða vestur í lok júlí eða í byrjun ágúst til hreinsunarstarfs við Steingrímsfjörð og í nágrenni Drangsness.
Oscar Uscategui, framkvæmdastjóri SEEDS á Íslandi, segir að sjálfboðaliðarnir séu aðallega ungt fólk. „Ástæðan fyrir því að þau bjóða sig fram til sjálfsboðastarfa er oft sú að því er umhugað um náttúruna og þau hafa áhuga á að halda Íslandi hreinu eða stuðla að verndun náttúrunnar með öðrum hætti. Mörg líta á sjálfboðastarf sem tækifæri til að upplifa íslenska náttúru eða telja að reynslan sé verðmæt í sjálfu sér, hún styrki þau og efli á ýmsan hátt eða komi sér vel á ferilsskránni þegar sótt er um störf,“ segir Oscar.
Karólína Helga Símonardóttir, segir að í Reykjarfirði hafi sjálfboðaliðar á vegum SEEDS tínt um 5 til 6 tonn af rusli af strandlengjunni á um 14 dögum. „Þetta var aðallega ýmiskonar plast; plastpokar, netakúlur, plast sem notað er til að halda saman kippum af dósum, alls kyns stærðarinnar plastumbúðir og fleira. Við höfum líka fundið heilu baðkörin í fjöru. Það er mikilvægt að allir vinni saman að því að henda ekki drasli í sjóinn, bæði til að vernda lífríki hafsins og landsins. Það er full þörf á vitundarvakningu um verndun sjávar,“ segir hún.
Strandlengjan á austanverðum Vestfjörðum er ýmist í eigu bænda, sveitarfélaga eða einstaklinga. Hreinsunarstarfið verður unnið í samstarfi við landeigendur á hverjum stað en eins og gefur að skilja eru þeir í mjög misjafnri stöðu til að halda strandlengjunni hreinni. Umhverfisstyrkur Landsbankans, í þessu tilfelli 250.000 krónur, mun nýtast til að kaupa mat fyrir sjálfboðaliðana og greiða ferðakostnað. SEEDS munu einnig tryggja að ruslinu verði fargað með viðeigandi hætti en förgunin getur verið kostnaðarsöm. „Náttúra Vestfjarða er einstök og okkur finnst einkar ánægjulegt að geta lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að vernda hana,“ segir Karólína.