22/12/2024

Sigvaldi sigrar 20 km í Skíðastaðagöngunni

Sigvaldi á fleygiferðÍ gær fór Skíðastaðagangan fram í Meyjarskarði í Reykjaheiði í nágrenni Húsavíkur, gangan var 2. gangan í Íslandsgöngumótröðinni.  Sigvaldi Magnússon sigraði í 20 km göngunni og var meðal annars þremur og hálfri mínútu á undan fimmföldum íslandsmeistara frá síðasta landsmóti Jakobi E. Jakobssyni og fleiri köppum.  Magnús Steingrímsson var í þriðja sæti í sínum aldursflokki sem er mjög góður árangur þar sem flestir bestu göngumenn landsins í þessum flokki voru með.  Guðrún Magnúsdóttir og Marta Sigvaldadóttir gengu einnig 20 km og voru í fyrsta og öðru sæti. 

Með sigrinum náði Sigvaldi forustu í stigakeppninni um Íslandsbikarinn, en tvær göngur eru eftir í mótaröðinni Strandagangan 16. apríl og Fossavatnsgangan 30. apríl. Staðarfjölskyldan hélt einnig uppi heiðri Strandamanna í stigakeppni héraða þar sem samanlagður fjöldi genginna kílómetra gildir til stiga. Strandamenn eru þar í öðru sæti fast á hæla Ísfirðinga. Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá okkar fólki.

Sigvaldi á fleygiferð – ljósm. Ingimundur Pálsson