22/12/2024

Sigurður Atlason áfram formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða


Sigurður Atlason formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Strandagaldurs ákvað að taka áskorun fundarmanna á aðalfundi samtakanna í Bjarkalundi um helgina og leiða starfið eitt ár til viðbótar. Hann hafði fyrir fund ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram. Nokkrar aðrar breytingar urðu á stjórn samtakanna, úr henni hverfa Keran Stueland í Breiðavík, Einar Unnsteinsson á Laugarhóli og Ragna Magnúsdóttir í Bolungarvík. Í stað þeirra komu Jón Þórðarson á Bíldudal, Valgeir Benediktsson í Árnesi í Trékyllisvík og Elfar Logi Hannesson leikari á Ísafirði. Að auki sitja áfram í stjórninni Ester Rut Unnsteinsdóttir í Súðavík sem er ritari, Sigurður Arnfjörð á Núpi í Dýrafirði sem er gjaldkeri og Halldóra Játvarðardóttir á Miðjanesi í Reykhólahreppi.