22/12/2024

Selir taldir á Vatnsnesi

Selasetur Íslands á Hvammstanga hyggst nú standa fyrir selatalningunni miklu annað árið í röð og verða selirnir taldir sunnudaginn 20. júlí næstkomandi. Líkt og í fyrra verða gengnar allar fjörur við Vatnsnes í Húnaþingi vestra, frá Miðfjarðarósi að vestan að Sigríðastaðaósi að austan, eða um 70 km leið. Í fyrra tóku um 30 sjálfboðaliðar þátt í talningunni, sá yngsti 4 ára og sá elsti á áttræðisaldri. Vonast er til að sjálboðaliðarnir verði jafn margir eða fleiri á þessu ári, enda byggir árangur talningarinnar algjörlega á þeim.

Í fyrra voru flestir selir á einstökum talningastöðum við Sigríðastaðaós 194 og Hindisvík 139. Einnig voru ríflega 60 við Krossanes, Svalbarð og Illugastaði. Alls voru taldir selir við Vatnsnesið 727 talsins, þar af 2 útselir. Nú er bara að sjá hvað Selatalningin mikla 2008 leiðir í ljós. Allar frekari upplýsingar fást hjá Selasetri Íslands í síma 451-2345 og 898-5233 eða á póstfangið selasetur@selasetur.is.