23/12/2024

Sektað fyrir nagladekk

Nú er síðasti séns að taka nagladekkin undan ef menn hafa ekki enn skipt yfir á sumardekkin. Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum segir að ökumenn hafi fyrir nokkru átt að vera búnir að taka dekkin undan, en miðað er við 15. apríl. Í þessari viku verður farið að beita þá ökumenn sektum sem eru á ferðinni á nagladekkjum, en sektir fyrir að aka á nöglum utan leyfilegs tíma er krónur 5.000.- á hvert dekk. Eins og reikningsglöggir Strandamenn sjá í hendi sér gerir það samtals 20 þúsund fyrir fjögurra hjóla fólksbíl, en 10 þúsund fyrir vespu á nagladekkjum.