22/12/2024

Seinni umferð í kosningu á Strandamanni ársins

Litríkur himinnNú er fyrri hluti kosningar um Strandamann ársins 2009 á strandir.saudfjarsetur.is að baki. Fjölmargar tilnefningar bárust, en í seinni umferð er kosið á milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fengu. Þeir sem koma til greina sem Strandamenn ársins 2009 eru Áhöfnin á Grímsey ST-2 á Drangsnesi, Ingibjörg Valgeirsdóttir frá Árnesi í Trékyllisvík, og Sigurður Atlason á Hólmavík. Hægt er að kjósa með því að smella á þennan tengil eða hér vinstra megin á síðunni. Umfjöllun um þá þrjá aðila sem eftir standa má sjá hér fyrir neðan, ásamt örstuttum sýnishornum af ummælum fólksins sem sendi inn tilnefningar.

Áhöfnin á Grímsey ST-2

Friðgeir Höskuldsson skipstjóri, Halldór Logi Friðgeirsson og Halldór Höskuldsson, skipverjar á Grímseynni, hafa staðið í fararbroddi á Ströndum við nýsköpun í sjávarútvegi með tilraunum sínum við kræklingaeldi í Steingrímsfirði. Lítur út fyrir að aðstæður séu góðar fyrir slíkt eldi í Steingrímsfirði, enda kom í ljós á árinu að áseta kræklingsins á þar til gerðum línum sem settar voru niður árið 2008 var afar góð. Miklar vonir eru bundnar við góðan árangur af þessu frumkvæði þeirra Drangsnesinga. Það er alls ekki sjálfgefið að þeir sem starfa í hefðbundnum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi leitist af kappi og dugnaði við að finna nýjar leiðir til nýsköpunar og atvinnuþróunar á Ströndum eins og þeir kappar á Grímseynni.

Meðal þess sem kom fram í tilnefningum um áhöfnina á Grímsey ST-2 var að hana skipuðu „frábærir fiskikarlar“ sem væru „sannkallaðir frumkvöðlar og brautryðjendur á nýju sviði einnar mikilvægustu atvinnugreinar landsins“. Þeir hefðu „sýnt mikinn áhuga og dugnað og lagt mikið undir“ og tekist „betur upp en öllum öðrum sem reynt hafa sig við kræklingarækt á landinu.“

Ingibjörg Valgeirsdóttir

Einn af stærstu atburðum ársins 2009 á Ströndum var vel heppnuð atvinnu- og menningarmálasýning sem haldin var í ágústlok. Sýningin bar heitið Stefnumót á Ströndum og tókst afbragðsvel, ekki síst vegna þess að Ingibjörg Valgeirsdóttir frá Árnesi í Trékyllisvík og fyrirtæki hennar Assa, þekking og þjálfun, stýrði framkvæmdinni af mikilli alúð og dugnaði. Ingibjörg stofnaði á árinu 2009 fyrirtækið Assa, þekking og þjálfun, en það hefur þegar getið sér gott orð við margvíslega starfsmanna- og stjórnendaþjálfun víða um land, hópefli og undirbúning fyrir gönguhópa sem tekið hafa stefnuna á Hornstrandir, svo dæmi séu tekin um verkefni þess. 

Um Ingibjörgu sagði í tilnefningum að hún væri „afbragðs stjórnandi, nákvæm og dugleg“, „góður fulltrúi Strandamanna og Árneshreppsbúa“ og „drífandi manneskja“. Þá var einnig sagt að „fyrirtæki hennar Assa- þekking og þjálfun hefur vakið mikla athygli“ og að hún hefði við undirbúning Stefnumóts á Ströndum staðið sig „með mikilli prýði þar sem hugmyndaflug hennar og atorka naut sín.“

Sigurður Atlason

Framkvæmdastjóri Strandagaldurs, Sigurður Atlason á Hólmavík, hefur eins og oft áður verið áberandi á árinu 2009 við margvísleg uppátæki, framtak og frumkvæði. Sigurður sýndi á sér nýja og hæfileikaríka hlið þegar hann gerðist veitingamaður á Kaffi Galdri í sumarbyrjun í veitingatjaldi við Galdrasafnið á Hólmavík. Sigurður hefur verið áberandi sem formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og leiðtogi ferðaþjónustuklasans Arnkatla 2008 og var mikilvægur aðili við undirbúning og hugmyndavinnu fyrir Stefnumót á Ströndum. Eins hefur Sigurður komið nálægt stefnumótun í ferðaþjónustu, súpufundum á Café Riis, jóladagatali með minningum eldri borgara, bíói fyrir börnin að ógleymdu skautasvelli við Galdrasýninguna sem síðustu vikur hefur vakið mikla lukku.

Um Sigurð var sagt að hann hefði lagt fram „ómetanlegt framlag til menningar, ferðaþjónustu og afþreyingar á Ströndum“, hann hafi „endalaust hugmyndaflug“, „auðgi mannlífið“ og komi að „mörgum framfara- og þróunarverkefnum“. Þá var einnig nefnt að Sigurður „gerði mikið fyrir ungdóminn“, og hefði unnið „metnaðarfullt og gjöfult starf í þágu menningar og lista á Ströndum“.

Frestur til að kjósa Strandamann ársins rennur út á hádegi kl. 12:00 mánudaginn 25. janúar.