22/12/2024

Segir fátt af einum

Nú um hádegisbilið á gamlársdag náðist af fjalli líklega síðasta lamb þessa árs. Það var hrútlamb frá Hirti bónda á Geirmundarstöðum, en æðarbóndinnn og útgerðarmaðurinn Guðmundur Ragnar Guðmundsson frá Ásmundarnesi var að koma niður Bassastaðahálsinn þegar lamb hljóp yfir veginn og stakk sér niður í Hálsgötugilið. Guðmundur hafði síðan samband að Bassastöðum og lét vita af fundinum og aðstoðaði síðan hjónin á Bassastöðum sem eru orðin nokkuð við aldur við að handsama gripinn sem fór strax í kletta í gilinu þar sem hann var snaraður og dreginn upp.

Þegar farið var að kanna ætt og uppruna lambsins kom í ljós að það var undan á sem kom í lok nóvember af Hvannadal með annað lambið ásamt fleira fé. Á þeim tíma hefur hrússi að öllum líkindum talið sig vera orðinn að alvöru hrút og farinn að starfa sjálfstætt, enda einkaframtakið í hávegum haft um þessar mundir. Að vonum hefur þó reynsluleysið reynst honum fjötur um fót og því fór sem fór. Hann getur þó huggað sig við það að hann slapp við slátrarann þetta haustið, þótt hann missti líka af fjöri jólanna í fjárhúsunum.

Lilja á Bassastöðum með hrútinn við gilið

Hrúturinn og hinir allir komnir niður á veg

Fagnaðarfundir – Hjörtur bóndi á Geirmundarstöðum tekur við hrútnum – ljósm. Guðbrandur Sverrisson