11/10/2024

Safnað fyrir músíkkjallarann

Næstu daga munu unglingar úr félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík ganga hús úr húsi og hitta forsvarsmenn fyrirtækja á Hólmavík og bjóða til sölu bókina Ísland í dag til styrktar starfsemi miðstöðvarinnar. Bókina sem er stútfull af áhugaverðum greinum og glæsilegum ljósmyndum má fá á þremur tungumálum og er hún því áhugaverð og heppileg gjöf til vina og vandamanna innanlands og erlendis. Hagnaður af sölu bókarinnar rennur svo óskiptur til áframhaldandi uppbyggingar á músíkkjallaranum svokallaða sem staðsettur er í mötuneyti Grunnskólans. Aðstaðan sem krakkarnir hafa komið sér upp er ágæt, en næsta skref er að kaupa ný söngkerfisbox og ljósasjó fyrir böll.


Langflestir sem sækja félagsmiðstöðin nota sér þessa aðstöðu mikið en hún nýtist einnig öðrum nemendum Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík en Tónskólinn er einmitt samstarfsaðili Ozon um uppbyggingu músíkkjallarans.