11/10/2024

Rysjótt veður og slæm færð

Í vikunni sem var að líða var veður rysjótt, færð á vegum á köflum slæm, hálka og snjór. Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að nokkrar aðstoðarbeiðnir bárust lögreglu vegna færðar og voru nokkrir vegfarendur aðstoðaðir og einnig voru björgunarsveitir kallaðar til aðstoðar. Á föstudag var veður mjög leiðinlegt á Ströndum og á bænum Odda í Bjarnarfirði varð foktjón, þegar þakplötur fuku af fjarhúsum.

Þriðjudaginn varð umferðaróhapp á Hrafnseyrarheiðinni, þar hafnaði jeppabifreið utan vegar í sneiðingnum að norðanverðu. Var mikil hálka á veginum. Ökumann sakaði ekki, náði að forða sér út áður en bíllinn fór fram af. Bifreiðin fjarlægð af vettvangi með krana og í framhaldi af óhappi þessu var veginum lokað.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í fjórðungnum, tveir í nágrenni Ísafjarðar og tveir í nágrenni Hólmavíkur. Sá sem hraðast ók, var mældur á 123 km/klst. þar sem leyfilegur hámarshraði er 90 km/klst. Akstursskilyrði breytast mjög hratt á þessum árstíma og vill lögregla beina því til vegfarenda að taka tillit til aðstæðna.

Skemmtanahald um helgina gekk vel og án afskipta lögreglu.