23/12/2024

Réttlæti í lífeyrismálum – aðgerðir strax

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Grundvöllur þeirra framfara sem orðið hafa á Íslandi á undanförnum áratugum var lagður af fólki sem nú er hætt að vinna og reiðir sig á sparnað og lífeyrisgreiðslur. Þetta er kynslóðin sem skaut traustum stoðum undir atvinnulífið, sem barðist fyrir bættum kjörum og félagslegum rétti, kynslóðin sem byggði upp velferðarkerfið sem við búum við í dag. Þjóðinni ber skylda til að búa vel að brautryðjendum sínum og sjá til þess að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni og aðbúnaði. Þess vegna eigum við að búa að vel að öldruðum.

Afnemum óréttlátar skerðingar

Á það hefur hins vegar skort og það er afar brýnt að á því verði breyting. Þegar litið er til þeirra ára sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa farið með stjórn landsins kemur glögglega í ljós hvernig misrétti hefur aukist í samfélaginu og stöðugt gengið á rétt og kjör lífeyrisþega og láglaunafólks. Á þessu tímabili hefur lífeyrir ekki fylgt almennri launaþróun og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst komið hinum tekjuháu til góða, en aldraðir fylla almennt ekki þann hóp.

Á sama tíma og kaupmáttur hefur almennt aukist í þessu landi, sérstaklega hjá hátekjufólki, hefur kaupmáttur lífeyrisgreiðslna ekki fylgt með. Lífeyrir hækkar ekki reglubundið eins og laun samkvæmt kjarasamningum og skattalækkanir hafa ekki skilað sér til tekjulægstu hópanna, þ.m.t. þeirra sem eru á lífeyri hvers konar.
Óréttlátar skerðingar og tekjutengingar hafa aukið enn á misréttið og haldið kjörum lífeyrisþega niðri. Þessu verður að breyta.

Hækkum skattleysismörkin

Persónuafslátturinn hefur langt í frá fylgt almennri verðlagsþróun frá því að honum var komið á með staðgreiðslunni á níunda áratugnum. En persónuafslátturinn í skattkerfinu er sá þáttur sem skiptir lágtekjufólk mestu máli, hann ræður því við hvaða tekjumörk fólk byrjar að greiða tekjuskatt. Flestir aldraðir hafa eingöngu lífeyrisgreiðslur til framfærslu og hækkun persónuafsláttar myndi hafa mikil áhrif til að bæta kjör þeirra. Vel má hugsa sér að sérstakur persónuafsláttur bætist við hjá þeim sem eingöngu eru með lífeyrisgreiðslur, vilji menn koma í veg fyrir að allir, líka þeir tekjuhæstu, njóti hækkunar persónuafsláttar. Hugmyndir um lægra skattþrep fyrir lífeyrisgreiðslur koma einnig vel til álita. Meginatriðið er að það verður að auka kaupmátt lífeyrisgreiðslna stórlega og það strax.

Réttlæti, skilvirkni, gagnsæi

Mér verður hugsað til þeirra mörgu kvenna sem lögðu lífsstarf sitt í uppeldi barna og heimilisstjórn, en fá nú það starf ekki metið til lífeyrisréttinda. Það er réttlætismál ekki síður en jafnréttismál að bæta kjör þessara kvenna verulega svo að þær geti lifað með reisn alla ævi. Við þurfum líka að gera átak til að einfalda verulega fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna. Kerfið er svo flókið að það er varla annað en fullfrískt fólk sem hefur færi á að kynna sér það til hlítar. Þess vegna þurfa margir lífeyrisþegar jafnvel að afla sér lögfræðiaðstoðar til að verja og sækja lífeyrisrétt sinn. Við þurfum að einfalda kerfið og gera það manneskjulegra til að það nýtist þeim sem þurfa á því að halda.

Bætum kjör lífeyrisþega strax

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar verði að bjóða heildarsamtökum aldraðra og öryrkja til raunverulegs samráðs og ákvarðanatöku um þeirra mál. Sett yrði í framkvæmd sameiginleg stefnumótun stjórnarandstöðunnar um að bæta kjör þeirra og til þess myndu renna viðbótarfjármunir af stærðargráðunni 7 milljarðar á ári. Við Vinstri græn leggjum áherslu á að ný skipan lífeyrismála komi til framkvæmda strax á þessu ári. Kjarabót til aldraðra þolir enga bið.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi