22/12/2024

Ratleikur með galdraívafi um Hólmavík í allt sumar

Háborgavarða í KálfanesborgumStrandagaldur mun standa fyrir ratleik í allt sumar um Hólmavík og
Kálfanesborgir. Þátttakendur í leiknum munu taka þátt í að bjarga Steingrími
nokkrum góða úr álögum sem Joðmundur loðni lagði á hann fyrir meira en 350 árum.
Joðmundur þessi loðni mun vera illa innrætt hálftröll sem hefur híbýli sín undir
Háborgavörðu efst í Kálfanesborgum en hann lagði þau álög á Steingrím góða að
hann myndi ekki losna úr fjötrum þeirra fyrr en í fyrsta lagi árið 2009, sem er
einmitt árið í ár. Til að bæta gráu ofan á svart þá ákvað hann einnig að
álagafjötrarnir féllu ekki af Steingrími góða nema 999 hugrökk börn á öllum
aldri myndu finna níu galdrastafi og tákn í grennd við Kálfanesborgirnar á
þriggja mánaða tímabili, frá 15. júní – 15. september á einhverju því ári á 21.
öldinni sem endar á tölustafnum níu. Þegar, og ef það tekst, sér Steingrímur
góði til sólar á ný og losnar úr fjötrunum.

Strandagaldur ætlar að sjá til þess
að Steingrímur góði losni úr álögunum strax á þessu ári, svo hann þurfi ekki að
bíða í önnur 10 ár til viðbótar. Það kemur hvergi fram á hvaða aldri börnin
þurfi að vera þannig að Galdrasýningin beinir því til allra Hólmvíkinga og þeirra sem leið eiga um
Hólmavík í sumar að hjálpa til við að létta álögunum af Steingrími góða. Öll
börn jafnt sem fullorðnir, sem þora að rifja upp barnið í sér, geta tekið þátt í
þrautinni.

Að launum fyrir þátttökuna fá allir þátttakendur í
björgunarleiðangri Steingríms góða sérstakt viðurkenningarskjal í hendur. Þessu
leiðsagnarkorti er skilað í afgreiðslu Galdrasafnsns á Hólmavík, eftir að réttir
galdrastafir hafa verið teiknaðir á það. Á viðurkenningarskjalinu kemur fram að
viðkomandi hafi náð fyrsta árs gráðu í galdrafræðum í Galdraskólanum á
Ströndum.

1 – Galdragarðurinn – ÆGISHJÁLMUR

Þú ert að leggja í
hættulegan leiðangur á slóðir Joðmundar loðna. Hann gæti orðið var við þig og
reynt að trufla þig við að bjarga Steingrími góða. Finndu galdrastafinn
Ægishjálm einhverstaðar í galdragarðinum á Hólmavík, sem er utan við
Galdrasafnið. Ægishjálmur er mikill verndarstafur og fyllir eiganda sínum
hugrekki þegar á þarf að halda. Finndu galdrastafinn og teiknaðu hann upp hér
til hliðar.

2 – Café Riis – GAPALDUR

Í grennd við veitingastaðinn
Café Riis skaltu draga upp glímugaldrastafinn Gapald. Hann getur orðið þér að
gagni ef Joðmundur loðni verður á vegi þínum og ræðst að þér. Gapald þarftu þá
að setja undir hæl á hægra fæti og muntu þá fella Joðmund loðna. Finndu
galdrastafinn og teiknaðu hann upp hér til hliðar.

3 – Hólmavíkurkirkja –
KRISTIÐ TÁKN

Gakktu tvisvar réttsælis í kringum kirkjuna og tvisvar
rangsælis. Líttu svo upp á turn kirkjunnar. Þar er að finna kristið tákn sem
tröll og hálftröll óttast meira en allt annað. Það getur þú notað ef hálftröllið
Joðmundur loðni kemur þér að óvörum í ferð þinni um Kálfanesborgir. En þangað er
ferð þinni heitið. Teiknaðu táknið hér til hliðar.

4 – Vatnstankurinn
ofan við kirkju – VINDGAPI

Joðmundur loðni er magnað hálftröll. Hann mun
beita öllum brögðum svo þú náir ekki að aðstoða við frelsun Steingríms góða.
Hann gæti meira að segja átt það til að æsa upp veðurguðina til að bregða fyrir
þig fæti. Finndu galdrastafinn Vindgapa og teiknaðu hann upp hér til hliðar á
þetta blað. Hann skaltu síðan nota til að hlífa þér ef vindur æsist og tefur
þig. Vindgapa finnur þú ef þú gengur afturábak með lognið í fangið í kringum
vatnstankinn. Taktu síðan stefnuna að göngustígnum um Kálfanesborgir. Farðu
varlega. Þú ert á slóðum Joðmundar loðna. Ef það er eitthvað sem hann þolir
ekki, þá er það mannaþefur í Kálfanesborgum.

5 – Kirkjuturninn hverfur –
FRETRÚNIR

Þegar þú fylgir stígnum upp á Kálfanesborgir nokkurn spöl þá
kemur innsti hluti þorpsins aftur í ljós. Opnaðu augun í hnakkanum og fylgstu
vel með þegar kirkjuturninn hverfur alveg á bakvið klett. Þar skaltu nema staðar
og stíga 7 – 8 þrep beint til vinstri. Þá eiga að liggja fyrir fótum þér
fretrúnir Steingríms góða málaðar á klöpp sem gægist upp úr gróandanum. Þú getur
notað þær ef þú mætir Joðmundi loðna, því prumpufýlan sem fylgir honum er meiri
en nokkur mennskur maður getur þolað. Teiknaðu fretrúnirnar tvær hér til
hliðar.

6 – Stígamót við Löngutjörn – VEGVÍSIR

Þú ert við stígamót
í Kálfanesborgum og þú hefur nýlega gengið framhjá uppþornaðri álfatjörn á hægri
hönd. Farðu varlega og truflaðu ekki huldufólkið sem býr í klettunum í kring.
Skilti með galdrastafnum Vegvísi vísar þér rétta leið að Háborgavörðu. Teiknaðu
galdrastafinn upp hér til hliðar. Hann verndar þig ef þú villist og sér til þess
að þú ratir heim þó þú sért á ókunnri slóð. Hafðu augu og eyru hjá þér næstu
mínúturnar. Það er aldrei að vita hvar Joðmundur loðni leynist og reynir að
stöðva för þína. Ef þú finnur til ónota, tautaðu þá fyrir þér Út héðan, út
þaðan, út og gjör þig hraðan, hvað eftir annað og mundu að þú hefur teiknað upp
verndarstafinn Ægishjálm þér til verndar.

7 – Háborgavarða

Ef
Joðmundur loðni verður ekki á vegi þínum frá stígamótunum að Háborgavörðu þá er
hann að öllum líkindum staddur djúpt undir henni í híbýlum sínum og hefur ekki
orðið var við þig ennþá. Skrifaðu nafn þitt (hljóðlega) í gestabók sem þú finnur
í vörðunni og teiknaðu til vonar og vara minnst einn þessara stafa til hliðar
aftan við nafnið þitt, til að verja þig gegn aðsók frá ófétinu.

8 –
Skólavarða – LÁSABRJÓTUR

Nú liggur leiðin niður í móti. Fylgdu stígnum og
veldu þér stein eða völu utan við hann. Berðu hann með þér að Skólavörðunni og
skildu við hann. Þar undir hefur Steingrímur góði legið í dvala í yfir 350 ár.
Gakktu í kringum vörðuna með þessum orðum: Blæs ég í mannsístru, taki í púkar
svo braki. Teiknaðu svo upp galdrastafinn Lásabrjót sem þú finnur hjá vörðunni.
Það hjálpar Steingrími góða að losna úr álögunum þegar 999 einstaklingar hafa
tekið þátt í björgunarstarfseminni.

9 – Upplýsingamiðstöðin –
KAUPALOKI

Við enda göngustígsins um Kálfanesborgir er Upplýsingamiðstöð
ferðamála. Þar þarftu að finna galdrastafinn Kaupaloka. Það er nauðsynlegt fyrir
þig að teikna hann upp áður en þú ferð í dvergaskútann til að leysa síðustu
þrautina. Dvergar heimta alltaf laun fyrir allt, en Kaupaloki sér til þess að þú
hafir betur í viðskiptum þínum við þá og greiðir götu þína. Galdrastafinn
Kaupaloka finnur þú í glugga við inngang Upplýsingamiðstöðvarinnar, við
tjaldsvæðið á Hólmavík.

10 – Dvergaskútinn neðan við kirkju –
DVERGARÚNIR

Ef þér hefur tekist að safna öllum táknunum hingað til þá
hefur þú hefur staðið þig vel í björgunarleiðangri Steingríms góða. Það er góð
von til þess að það takist að losa hann úr illu álögum Joðmundar loðna. Það er
aðeins ein þraut eftir áður en verkefni þínu lýkur. Þú þarft að hitta dvergana.
En þeir eru ekki bara dvergar, heldur líka nískupúkar sem gefa ekkert og
þessvegna er gott að þú hefur fundið Kaupaloka sem hjálpar þér í viðskiptum
þínum við þá. Dvergarnir varðveita síðasta lykilinn að björgun Steingríms góða.
Í litlum hellisskúta í klettunum neðan við Hólmavíkurkirkju er inngangur að
veröld þeirra Hann er rétt við tröppurnar sem liggja upp að kirkjunni. Þar
hangir rúnastafróf með dvergarúnum og verkefni þitt er að skrifa með rúnunum
orðið GALDUR í reitina að neðan. Þegar þér hefur tekist það þá skaltu fara á
Galdrasafnið, þar sem leikurinn hófst, og færa starfsfólkinu þar lausnina.
Vonandi hefur þér tekist að ljúka fyrsta árs gráðu í galdrafræðum í
Galdraskólanum á Ströndum. Það kemur í ljós. Þá færðu sérstakt
viðurkenningarskjal fyrir góðan árangur.