01/05/2024

Rætt um starfsemi í Höfðagötu 3

Fram kom í viðtali við Ásdísi Leifsdóttir sveitarstjóra Strandabyggðar í Svæðisútvarpinu á föstudag að sveitarfélagið hafi nú eignast gamla Kaupfélagshúsið á Höfðagötu 3 á Hólmavík. Skrifað hafi verið undir kaupsamning við Kaupfélag Steingrímsfjarðar. Samkvæmt fundargerðum Strandabyggðar var síðast fjallað um málið á sveitarstjórnarfundi 28. nóvember 2006, þar sem sveitarstjóra er heimilað að gera bindandi kauptilboð í húsið. Því var þá mótmælt harðlega af minnihluta H-listans í sveitarstjórn Strandabyggðar.

Í sama viðtali kemur fram að ætlunin sé ræða á sveitarstjórnarfundi í dag hvaða starfsemi verður í húsnæðinu á næstunni og hvernig aðstaðan verði skipulögð. Engin starfsemi hefur verið í húsinu undanfarin ár, nema hvað Strandagaldur hefur þar skrifstofuaðstöðu og hefur meðal annars unnið þar að undirbúningi fyrir stofnun Þjóðtrúarstofu sem stefnan er að verði vinnustaður fyrir 3-5 fræðimenn.

Mjög líklegt er að í húsinu verði einnig námsver fyrir íbúa Strandabyggðar sem eru í fjarnámi, en Strandabyggð frestaði því fyrir ári að koma slíku námsveri á laggirnar þangað til nú í haust. Undirbúningsvinna fyrir það virðist hafa gengið eitthvað rólega síðan. Þá hefur staðið til hjá sveitarstjórn Strandabyggðar að stofna Héraðsskjalasafn fyrir Strandir og stefnan hefur verið að hafa það í húsinu. Einnig að flytja þangað Héraðsbókasafn Strandasýslu sem er nú í eigin húsnæði í viðbyggingu við Grunnskólann á Hólmavík og er orðið heldur þröngt um það þar, einkum vegna sambúðar til Tónlistarskólann á Hólmavík sem hefur þar aðstöðu í einu horninu.

Þá hefur nú í vor og sumar komið í ljós að hægt er að fá stuðning ríkisvaldsins við að koma á laggirnar Þróunarsetri á Hólmavík, hafi sveitarstjórnin áhuga á því. Slíkt Þróunarsetur var formlega opnað á Patreksfirði um síðustu helgi. Svo er að skilja að lofað hafi verið einu stöðugildi í tengslum við stofnun Þróunarseturs á Hólmavík í tengslum við skýrslu Vestfjarðarnefndarinnar í vor, en sú staða hefur ekki verið auglýst enn. Þá hefur Menningarráð Vestfjarða sóst eftir skrifstofu í Þróunarsetrinu ef af því verður og ef til vill fleiri sem ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is er ekki kunnugt um.

Loks er mikill áhugi á Ströndum fyrir því að framhaldsskóladeild í tengslum við einhvern framhaldsskóla landsins verði komið á fót á Ströndum með svipuðu sniði og á Patreksfirði. Sú vinna mun vera nokkurn veginn á byrjunarreit.