23/12/2024

Ráðherra skapar óþarfa spennu milli atvinnugreina

Aðsend grein: Sigurður Atlason
Síðastliðinn mánudag gaf sjávarútvegsráðherra út reglugerð um hrefnuveiðar þar sem leyfð er veiði á 40 hrefnum í atvinnuskyni. Mikilvægt hlýtur að teljast að ákveðin tillitsemi sé viðhöfð vegna þessara hrefnuveiða. Þegar talað er um af fylgismönnum veiðanna að þær geti farið fram samhliða hvalaskoðun þá geri ég ráð fyrir að það sé ekki verið að meina að hvalaskoðunarbátar í náttúruskoðun geti átt von á því að hrefnuveiðibátur sé að veiðum á sama svæðinu. Það hlýtur að vera sanngjarnt að hrefnuveiði fari ekki fram á þeim svæðum þar sem skipulögð hvalaskoðun er fyrir hendi, auk þess sem það ætti að gefa hvalaskoðunarfyrirtækjum nokkuð rými.

Það er áberandi hvað veiðin fer mikið fram innan Reykjavíkur- og
Keflavíkursvæðanna og á jöðrum þeirra. Það á jafnt við um jaðra annarra
hvalaskoðunarsvæða, s.s. út af Skjálfanda og Eyjafirði. Fyrsta hrefnan sem skotin var á yfirstandandi tímabili var einmitt tekin á Faxaflóa. Það er eins víst að það einstaka dýr sé einmitt sýningardýr. Einnig er ljóst að Steingrímsfjörður á Ströndum verður mikið fyrir valinu hjá hrefnuveiðimönnum. Íbúum Hólmavíkur er enn í fersku minni þegar ein skepnan var skotin nánast í hafnarkjaftinum á Hólmavík síðasta vor, fjölda íbúa þar til töluverðrar gremju, jafnt þeim sem styðja hvalveiðar sem öðrum. Á meðfylgjandi korti með upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun sést hvar hrefnur voru veiddar á tímabilinu 2003-2007.

Það er alþekkt í náttúrunni að dýrin haldi sig meira og minna á sömu svæðum. Það á jafnt við um fugla og spendýr. Því er það alveg ljóst í mínum huga að þau dýr sem eru drepin innan svæðanna sem ég tiltek á kortinu hér að neðan eru að langmestu leyti dýr sem hvalaskoðunarfyrirtæki hafa tekjur af. Það er alkunn staðreynd að það er ekki gæfulegt að drepa góðar mjólkurkýr í nytjum. Fyrst á annað borð hefur verið ákveðið að heimila veiðar á 40 hrefnum þá er ekki nema sjálfsagt að sækja þær utan við hvalaskoðunarsvæðin. Nóg er plássið og veiðilendur allt í kringum landið. Því legg ég til að ráðherra semji í einum grænum reglugerð sem segir til um hvar hrefnuveiðibátar megi athafna sig og reyni að ná sáttum milli allra aðila í þessu leiðindamáli. Eins og sjá má er nóg af veiðisvæðum allt í kringum landið þó hvalaskoðuninni verði gefið rými til að halda áfram að blómgast. Á kortinu að neðan er mín tillaga um hólf þar sem ætti ekki að leyfa hrefnuveiðar.

Við Steingrímsfjörð hefur verið í undirbúningi hvalaskoðunarverkefni í þrjú ár og talning farið fram á firðinum sem stendur enn yfir. Það er alveg ljóst að þar eru gríðarlegir miklir möguleikar sem íbúar svæðisins ætla sér að nýta. Þann 1. júní n.k. mun fyrsta áætlunarferðin í hvalaskoðun vera farin frá Drangsnesi. Þessi starfsemi mun skipta miklu máli fyrir uppyggingu atvinnutækifæra á öllum Ströndum á komandi árum. Það er óþolandi ef ráðherra ætlar að bregða fæti fyrir ætlun heimamanna að auka við atvinnutækifæri á svæðinu með því að leyfa hrefnuveiði á Húnaflóa. Sú starfsemi skapar íbúum þar enga tekjumöguleika.

Sigurður Atlason