30/10/2024

Pósturinn komst til skila í Árneshrepp

Það var fært bæði landleiðina og flugleiðina í Árneshrepp á Þorláksmessu þannig að jólapóstur og pakkar hafa komist til skila og jafnframt komust allir til síns heima. Flugfélagið Ernir flaug á Gjögur og lent um 15:30, en fyrr um morguninn var flugi frestað vegna veðurs og daginn áður var ekki flogið vegna vélarbilunar. Þannig að Árneshreppsbúar fengu jólapóstinn sinn á síðustu stundu fyrir jól. Vegagerðin opnaði jafnframt veginn norður að morgni Þorláksmessu og eftir mikla hláku í nótt er hann enn opinn og merktur hálkublettum á vef Vegagerðarinnar. Næsta flug á Gjögur verður á mánudaginn 29. desember.