23/12/2024

Ozon í Samfés og beint á Rás tvö

Í dag fer fram í Laugardagshöll hin árvissa Söngkeppni Samfés (Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi). Strandamenn eiga að sjálfsögðu fulltrúa eins og undanfarin ár, en söngfuglar úr Félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík hafa verið iðnir við að komast upp úr Vestfjarðariðlinum undanfarin ár. Í ár er það Sylvía Bjarkadóttir sem þenur raddböndin til hins ítrasta í kántrýhittaranum Bubbly eftir Jason Reeves og söngkonuna Colbie Caillat. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að keppnin er send út á Rás tvö og því geta allir áhugasamir fylgst með. Útsending hefst kl. 13:00, en fulltrúar Strandamanna eru nr. 27 í röðinni af 30 atriðum.

Að sjálfsögðu eru allir hvattir til að hlusta og senda okkar fólki úr Ozon góða strauma. Sylvía stendur þó ekki ein á sviðinu því mikið mæðir á hljóðfæraleikurunum, en þeir eru Valdimar Friðjón Jónsson slagverksleikari, Börkur Vilhjálmsson gítarleikari og Vilhjálmur Jakob Jónsson bassaleikari. Hægt er að kynnast laginu sem flutt verður með því að smella hér.