23/12/2024

Óvíst með opnun Café Riis í sumar

.Enn er óvíst hvernig verður með rekstur Café Riis í sumar og hvort veitingastaðurinn verður yfirleitt opinn, en samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is varð ekki úr kaupum Brynleifs Siglaugssonar á húsinu á lokastigi. Eigandi þess er þá enn Fjarðarklettur ehf, en það fyrirtæki hefur ekki á stefnuskránni að reka staðinn sjálft og vill helst selja húsið eða leigja reksturinn öðrum kosti. Ferðaþjónustuaðilar á Ströndum hafa töluverðar áhyggjur af framvindu mála, enda hefur Café Riis verið einn af lykilaðilum i ferðaþjónustunni síðustu sumur og eina veitingahúsið á Hólmavík fyrir utan söluskála Essó, en þar er eingöngu um skyndibitastað að ræða án áfengisleyfis.

Það er talsvert áhyggjuefni að ekki skuli vera kominn ákveðinn rekstraraðili að veitingahúsinu í sumar þar sem æði stutt er í að ferðamannatímabilið hefjist. Góðir sumarstarfskraftar verða að öllum líkindum búnir að tryggja sér vinnu fyrir sumarið mjög fljótlega og því hætt við að erfitt verði að finna gott starfsfólk nema eitthvað verulega róttækt fari að gerast í sölunni eða leigu á rekstrinum á allra næstu dögum.